Karlar í umönnunar- og kennslustörfum

Eygló Harðardóttir skrifar

Karlar í umönnunar- og kennslustörfum

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, 
á fundi aðgerðahóps um launajafnrétti kynja á Grand Hótel Reykjavík 13. febrúar 2014

Sæl öll og velkomin á fund um alveg einstaklega spennandi og mikilvægt efni. Jafnrétti kynjanna – eða öllu heldur skorturinn á því hefur margvíslegar birtingarmyndir. Eitt er þó víst að jafnréttismál eru ekki hagsmunamál annars kynsins eins og stundum má ætla. Jafnrétti kynjanna á að vera og er stórmál jafnt fyrir karla og konur og það er mikilvægt að öllum sé þetta ljóst.

Það gengur erfiðlega að eyða kynbundnum launamun og þar hallar vissulega á konur. En við skulum velta fyrir okkur fleiri hliðum málsins en þeirri fjárhagslegu. Þetta snýst líka um jöfn tækifæri karla og kvenna til að mennta sig og velja sér starfsvettvang. Þessi hefðbundnu kvenna- og karlastörf sem við sjáum eins og hverja aðra staðreynd í ýmsum greinum er hamlandi fyrir bæði kynin og gengur gegn hagsmunum samfélagsins.

Mörg vígi hafa fallið á liðnum árum, en þá fyrst og fremst í greinum og fögum sem áður voru nær eingöngu vettvangur karla. Ljósustu dæmin um þetta eru störf lögfræðinga, lækna og presta en margar fleiri greinar og fög mætti telja þar sem konur eru í stöðugri sókn, til dæmis ýmsar iðn- og tæknigreinar. Það gengur hins vegar öllu hægar hjá körlum að hasla sér völl í þeim störfum sem teljast dæmigerð kvennastörf – en þau eru einkum á sviði umönnunar og kennslu og nærtæk dæmi eru störf hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, kennara og félagsráðgjafa.

Það er athyglisvert að skoða kynbundinn mun í náms- og starfsvali en eins er merkilegt að sjá þann mun sem orðinn er á skólagöngu kynjanna. Konur eru nú meirihluti nemenda á öllum skólastigum nema svokölluðu viðbótarstigi sem felur í sér starfsnám á mörkum framhaldsskóla- og háskólastigs. Árið 2012 voru konur 52% nemenda á framhaldsskólastigi, 38% nemenda á viðbótarstigi, 62,5% nemenda á háskólastigi og 62,4% nemenda á doktorsstigi. Konur eru í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólanámi alls staðar á Norðurlöndunum en á Íslandi er hlutfallið þó áberandi hæst eða tæp 67%.

Við skerum okkur þó úr í fleiri efnum í norrænum samanburði. Þótt tölur sýni að hlutur karla í svokölluðum dæmigerðum kvennastörfum er rýr alls staðar á Norðurlöndunum er hann áberandi minnstur hér á landi. Norðmenn eru aftur með hæsta hlutfallið þar sem karlar sinna til dæmis í vaxandi mæli umönnunarstörfum og kennslu í leikskólum. Alls staðar má sjá að karlarnir eru að feta sig inn í þessar greinar en sú breyting er mjög hægfara.

Í kjölfar kreppunnar fóru Norðurlandaþjóðirnar að gefa þessum málum meiri gaum en áður, ekki síst í ljósi þess hve skyndilega stóraukið atvinnuleysi kom misjafnlega niður á kynjunum. Hrun í atvinnugreinum þar sem karlar voru nær allsráðandi opnaði augu margra fyrir því að kynskiptur vinnumarkaður er alvarleg hindrun sem stendur í vegi fyrir nauðsynlegum sveigjanleika á vinnumarkaði og skerðir atvinnumöguleika fólks.

Það sem hindrar kynin – og nú tala ég um karla – frá því að sækja inn í hefðbundin kvennastörf eru ekki sýnilegar girðingar heldur eru þetta miklu frekar hefðir og hugarfarslegir hlekkir. Það er ekkert náttúrulögmál að karlar geti ekki sinnt umönnun, lært hjúkrun, stundað sjúkraliðanám og starfað sem slíkir eða kennt börnum. Þetta geta karlar að sjálfsögðu og gera sumir – en ég er viss um að þeir eru miklu fleiri sem gætu vel hugsað sér þennan starfsvettvang ef ekki væri þessi fyrirstaða hefða og hugsunarháttar. En auðvitað getur verið erfitt að vera í hópi þeirra fyrstu sem stíga þessi skref og fara í nám og síðar inn á vinnustaði þar sem annað kynið er í afgerandi meirihluta.

Staðalmyndir og viðhorf takmarka augljóslega frelsi einstaklingsins til að njóta hæfileika sinna óháð kyni og hindra þannig bestu nýtingu mannauðsins. Bæði kynin eiga að geta valið sér nám og störf án þess að mæta fordómum og flestar starfsgreinar þurfa nauðsynlega á báðum kynjum að halda.

Þessi svokölluðu dæmigerðu kvennastörf felast yfirleitt í þjónustu við almenning og margvíslegum samskiptum við þá sem eru viðskiptavinir. Viðskiptavinirnir eru eðli málsins samkvæmt ekki aðeins konur, heldur konur og karlar, ungir og gamlir, börn og raunar fólk á öllum aldri. Það hlyti að vera æskilegra allra hluta vegna að meira jafnræði væri með kynjunum þegar kemur að því að móta og veita þá þjónustu sem um ræðir og eins gagnvart þeim sem sækja sér þjónustuna. Í kennslu eru kennarar fyrirmyndir nemendanna og því verður að telja það augljóst vandamál og skort þegar annað kynið er þar víðsfjarri.

Við vitum að laun fyrir dæmigerð kvennastörf eru að jafnaði lægri en laun í dæmigerðum karlastörfum. Eflaust dregur sú staðreynd úr áhuga karla fyrir því að sækja inn á þennan vettvang en þetta dugir þó enganveginn sem skýring. Að sjálfsögðu verður að eyða kynbundnum launamun og bæta laun dæmigerðra kvennastétta. Notkun starfsmats er ein leið til þess, þar sem það gerir mögulegt að bera saman ólík störf út frá þáttum eins og kröfum um reynslu og menntun, álagi og  vinnuaðstæðum. En við þurfum fyrst og síðast að ,,afkynja“ ólík störf og mismunandi starfsvettvang karla og kvenna.

Nærtækt dæmi um starf sem skýrskotar sérstaklega til kyns er ljósmóðurstarfið. Vissulega er starfsheitið ljósmóðir fallegt en það er tæpast til þess fallið að draga að karlmenn. En það eru ekki aðeins starfsheitin sem geta staðið í vegi heldur einnig hvaða mynd er dregin upp af viðkomandi starfi og hvort því er lýst með áherslu á eiginleika sem frekar eru eignaðir öðru kyninu en hinu. Ég held til dæmis að fáir átti sig á því hvað störf sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga gera miklar kröfur til tæknilegrar þekkingar og kunnáttu í því að tileinka sér notkun flókins tækjabúnaðar. Það fer fyrir lítið fyrir þessari staðreynd þegar fjallað er um þessi störf, kannski af því að í hlut eiga kvennastéttir. Ef við gefum okkur að karlar séu tæknilega sinnaðir má vel vera að þetta væru fög sem myndu höfða meira til þeirra ef þessum þætti væri gert hærra undir höfði þegar fjallað er um nám og störf í umræddum greinum.

Góðir gestir.

Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og ég gæti haldið lengi áfram en tel nú rétt að hleypa fleirum að ræðupúltinu. Fyrst og fremst legg ég áherslu á að við höfum séð breytingar eiga sér stað sem gengið hafa þvert á meint náttúrulögmál um hlutverk kynjanna og hefðbundna aðgreiningu starfa eftir kyni. Við sjáum líka að þróun og breytingar í þessa átt ganga hraðar hjá sumum grannþjóðum okkar. Þess vegna eigum við að leita í smiðju þeirra sem best gengur að brjóta niður múrana og nýta okkur þær aðferðir sem best reynast. Um það verður meðal annars fjallað hér á eftir en framundan eru áhugaverðir fyrirlestrar og umræður sem ég vona að verði okkur öllum innblástur að öflugu starfi sem styrkir og bætir vinnumarkaðinn og fjölgar tækifærum karla til áhugaverðra, skemmtilegra og gefandi starfa.