Notkun Evrópusáttmálans í stefnumótun og hugleiðingar um innleiðingu hans

Sigríður Indriðadóttir skrifar

Notkun Evrópusáttmálans í stefnumótun og hugleiðingar um innleiðingu hans

Notkun Evrópusáttmálans við mótun mannauðsstefnu hjá Mosfellsbæ Vinna við gerð mannauðsstefnu hófst um svipað leyti og Mosfellsbær skrifaði undir Evrópusáttmálann um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum. Það lá því ljóst fyrir frá upphafi að sáttmálinn yrði hafður til hliðsjónar við gerð stefnunnar. Mannauðsstefnan er í fjórtán stuttum köflum og var Evrópusáttmálinn skoðaður sérstaklega út frá 11. grein hans um Hlutverk atvinnurekandans. Sérstök áhersluatriði voru valin úr og þau fléttuð inn í mismunandi kafla stefnunnar, samanber

• 1. lið 11. greinar Evrópusáttmálans um að Mosfellsbær viðurkenni rétt kvenna og karla til jafnrar stöðu hvað varðar alla þætti starfsmannamála
• 2. lið 11. greinar Evrópusáttmálans um réttinn til samræmingar atvinnu- félags- og einkalífs og réttinn til virðingar og öryggis á vinnustað
• 4. lið 11. greinar Evrópusáttmálans um
- ráðstafanir til að tryggja sanngjarnar ráðningar
- ráðstafanir til að tryggja viðeigandi heilsusamlegar og öruggar vinnuaðstæður
- andsöðu við kynferðislega áreitni á vinnustað með því að gefa skýr skilaboð um að slík hegðun sé með öllu óásættanleg.
- að vinnustaðir Mosfellsbæjar skuli endurspegla marbreytileika samfélagsins

Svipuð vinna mun fara fram í annarri stefnumótun bæjarins, en um þessar mundir er meðal annars verið að endurskoða fjölskyldustefnu og skólastefnu. Skólastefnan er unnin á lýðræðislegum forsendum þar sem íbúar komu saman á skólaþing síðastliðið vor til að ræða mikilvægustu stefnuatriðin. Við gerð skólastefnunnar mun 13. grein Evrópusáttmálans vera höfð sérstaklega til hliðsjónar. Atriðin sem verða valin út verða fléttuð inn í alla stefnuna.

Innleiðing, mælingar og markmiðasetning

Við stefnumótun þarf að huga að hvernig staðið skuli að innleiðingu og hvernig mæla eigi árangur. Þá er mjög mikilvægt að setja sér raunhæf markmið og útbúa aðgerðaáætlanir til að ákveða hvernig á að ná markmiðunum. Við gerð aðgerðaáætlana er mikilvægt að setja tímamörk og afmarka ábyrgðasvið fyrir hvert og eitt markmið, þannig að öllum sé ljóst að hverju sé stefnt, fyrir hvaða tíma og hver beri ábyrgð á framkvæmdinni.

Til að mæla framkvæmd og virkni mannauðsstefnunnar er gerð aðgerðaáætlun til eins árs í senn, auk þess sem árleg viðhorfskönnun er gerð meðal starfsmanna Mosfellsbæjar. Inn í þá könnun eru sett atriði úr Evrópusáttmálanum sem eru mæld sérstaklega. Sem dæmi má nefna mælingar á hlutfalli starfsmanna sem:

• telja að reynsla og þekking allra starfsmanna fái notið sín óháð stöðu á vinnustað
• telja að á sínum vinnustað beri starfsfólk gagnkvæma virðingu hvert fyrir öðru
• þekkja gildandi jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar,
• telja að á sínum vinnustað eigi bæði kynin jafnan rétt
• hafa orðið fyrir áreitni, bæði frá samstarfsmönnum og viðskiptavinum.
• telja vinnuumhverfi sitt öruggt og heilsusamlegt

Ef þessi atriði koma ekki vel út á einhverjum vinnustað fer fram greiningarvinna meðal starfsmanna til að finna birtingarmyndir, orsakir og mögulegar lausnir til að bæta viðkomandi atriði.


Hindranir og tækifæri við innleiðingu á Evrópusáttmálanum

Þegar kemur að innleiðingu sáttmálans blasa við heilmargar hindranir:
• Sáttmálinn er margar blaðsíður að lengd, leiðbeiningaritið er á ensku og með fylgir þykk handbók um kynjasamþættingu.
• Skortur á fjármagni – sveitarfélög þurfa að skera niður og fjármagn til jafnréttismála er ekki undanskilið.
• Skortur á tíma – oft fer einungis einn embættismaður með jafnréttismál sveitarfélags.
• Skortur á fræðslu til starfsfólks og kjörinna fulltrúa um jafnréttismál. Það getur verið erfitt að koma jafnréttisumræðu að á efstu stigum stjórnkerfisins.
• Einhver gæti spurt: Hefur eitthvað upp á sig að innleiða svona sáttmála? Er þetta ekki bara enn eitt plaggið sem á eftir að enda undir stól? Til hvers þá að innleiða?

En við megum ekki gleyma því að við höfum líka tækifæri. Jafnvel fleiri tækifæri en hindranir:

• Handbókin um kynjasamþættingu er á íslensku og er mjög aðgengileg í alla staði.
• Hugsum „Skref fyrir skref“. Það felast tækifæri í því að ætla ekki að sigra heiminn á einum degi. Einbeitum okkur að ákveðnum atriðum í sáttmálanum og innleiðum þau fyrst.
• Notum tækifærið þegar stefnur sveitarfélaganna eru endurskoðaðar og samþættum kynjasjónarmið smám saman inn í.
• Innleiðing Evrópusáttmálans getur hafist þó fjármagn sé lítið. Veljum atriði sem kosta ekki mikið. Byrjum þar og endurskoðum síðar.
• Samvinna milli sveitarfélaga og Jafnréttisstofu – Við erum ekki ein í þessu. Fræðum hvert annað.
• Í dag „mᓠhugsa út fyrir kassann – notum tækifærið og eflum jafnréttisumræðuna.
• Gerum einfalda verkáætlun.
• Núllstillum með einfaldri viðhorfskönnun, setjum mælanleg markmið.
• Eftir heilt ár gerum við nýja mælingu og sjáum strax árangur.


Það er mikilvægt að sveitarfélag sem skrifar undir Evrópusáttmálann gefi sér góðan tíma til að innleiða hann. Mikilvægasta málið er að taka ákvörðunina og stíga síðan fyrsta skrefið í átt til innleiðingar. Með því að smám saman endurskoða gildandi stefnur og flétta kynjasjónarmið inn í þær allar þá tekst að lokum að innleiða Evrópusáttmálann inn í alla starfsemi bæjarins.



Sigríður Indriðadóttir
Mannauðsstjóri Mosfellsbæjar