Við eigum að vera í fremstu röð

Góðir ráðstefnugestir. Á mannfjöldaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kairó árið 1994 urðu flestar þjóðir heims sammála um að besta leiðin til að draga úr óæskilegri mannfjölgun og fátækt væri að mennta konur og auka völd þeirra og áhrif. Bætt staða kvenna myndi skila sér til barnanna og samfélagsins alls. Þessi samþykkt var ítrekuð ári síðar á fjórðu kvennaráðstefnu SÞ í Peking ásamt ítarlegri framkvæmdaáætlun þar sem kveðið var á um aðgerðir til að bæta stöðu kvenna nánast frá vöggu til grafar. Þess er minnst einmitt þessa dagana að 15 ár eru liðin frá því að Pekingsáttmálinn var samþykktur.

Aldamótaárið 2000 samþykktu SÞ þúsaldarmarkmiðin en tvö þeirra beinast að konum og eitt að börnum. Markmið 3 fjallar um bætta stöðu kvenna og valdeflingu þeirra, markmið 4 um heilsu barna, þar með talið að dregið verði úr barnadauða um tvo þriðju fyrir árið 2015. Fimmta markmiðið kveður á um bætta heilsu kvenna, einkum að dregið verði úr mæðradauða um tvo þriðju. Á fundi kvennanefndar SÞ síðastliðinn vetur var litið yfir farinn veg frá kvennaráðstefnunni í Peking og spurt hvað hefði áunnist, hvernig miðaði við að ná þúsaldarmarkmiðunum og hver væru brýnustu verkefnin framundan.

Þar er skemmst frá að segja að verulega hefur dregið úr barnadauða, m.a. vegna bólusetninga en hins vegar gengur illa að draga úr mæðradauða. Það var haft á orði að mæður hefðu verið sviknar og að kaflinn um stúlkubarnið í framkvæmdaáætluninni frá Peking hefði gleymst. Ástæðan er mikil andstaða við að fræða konur um takmarkanir barneigna. Staða kvenna batnar á sumum sviðum en versnar á öðrum. Menntun kvenna og atvinnuþátttaka hefur aukist á heimsvísu og konum hefur fjölgað nokkuð á þjóðþingum þótt hraðinn minni mest á snigilinn. Á dökku hliðinni blasir við mikið ofbeldi gegn konum ekki síst á átaka- og hamfarasvæðum. Umsvif bókstafstrúarmanna af ýmsu tagi gerir konum lífið leitt en þeir eiga það yfirleitt sameiginlegt að vilja sníða konum afar þröngan stakk. Á ákveðnum svæðum, einkum í Afríku, leikur alnæmi samfélögin grátt og þar deyja fleiri konur en karlar af völdum þess. Samdráttur í efnahagslífinu bitnar verst á hinum fátæku en konur eru í meirihluta þeirra að ekki sé minnst á áhrif loftslagsbreytinga sem gera lífsbaráttu kvenna erfiðari í suðri og körlum erfiðara fyrir á norðurhjara veraldar.

Af hverju gengur svona hægt að bæta stöðu kvenna þrátt fyrir ítrekaðar samþykktir um að ekkert myndi koma veröld okkar betur? Hvers vegna versnar staða kvenna í sumum ríkjum heims?

Ástæðan er einkum hrein og klár andstaða við aukin réttindi og völd kvenna byggð á aldagömlum valdakerfum, menningu, trú, hefðum og hagsmunum. Og það eru bæði konur og karlar sem viðhalda kerfinu. Við megum þó ekki gleyma því að það eru karlar sem hafa höldin og taglirnar í stjórnmálum, efnahagslífinu og öðrum opinberum valdastofnunum og þeir halda fast um valdataumana. Ástæða tregðunnar er einnig átök milli og innan þjóða og nú síðast versnandi lífskjör vegna loftslagsbreytinga sem því miður gætu leitt af sér aukin átök um auðlindir, eins og til að mynda vatn.

Við Íslendingar erum nú í efsta sæti jafnréttislista World Economic Forum. Við stöndum okkur mjög vel á vissum sviðum en lakar á öðrum. Við erum ekki eyland heldur hluti af heimi þar sem við gegnum og eigum að gegna því hlutverki að vera til fyrirmyndar og ryðja brautina fyrir samfélag lýðræðis, réttlætis, jafnra tækifæra og jafnrar virðingar kynjanna. Er hægt að hugsa sér göfugra markmið?

Að mörgu þarf að hyggja til að ná þeim markmiðum.

Um þessar mundir hafa íslenskar kvennahreyfingar vart undan að halda upp á afmæli fenginna réttinda, kvenfélaga og viðburða úr sögu kvenna. Á þessu ári eru liðin 100 ár frá því að allar konur á Íslandi fengu rétt til að bjóða sig fram og kjósa til sveitarstjórna og 90 ár síðan allar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Á næsta ári verða 100 ár frá því að íslenskar konur fengur rétt til allra embætta, náms og styrkja fyrstar kvenna í heiminum sem leiddi til þess að fyrsta stúlkan hóf nám í nýstofnuðum Háskóla Íslands.

Í október munu nánast allar kvennahreyfingar landsins sameinast um ráðstefnur og aðgerðir í tilefni af því að 35 ár verða liðin frá kvennafrídeginum eða kvennaverkfallinu 24. október 1975. Annars vegar verður sjónum beint að ofbeldi karla gegn konum og hins vegar verða konur hvattar til að ganga út af vinnustöðum sínum kl. 14:25 mánudaginn 25. október, þegar þær verða búnar að vinna 65% vinnudagsins. Með því á að minna enn og aftur á mikilvægi vinnuframlags kvenna og að konur hafa að meðaltali 65% af atvinnutekjum karla. Sú staðreynd endurspeglar mismunandi stöðu kynjanna þar á meðal aðstöðu til að stunda vinnu utan heimilis.

Það er sem sagt margt að skoða í jafnréttisríkinu Íslandi þrátt fyrir árangur sem við skulum svo sannarlega halda á lofti. Það er gleðilegt þótt seint sé að hlutfall kvenna í sveitarstjórnum skuli komið upp í 40% - en það er ekki nóg. Það er gleðilegt hve konum hefur fjölgað á Alþingi, þær eru 43% en það er heldur ekki nóg. Það er uppörvandi hve konur eru duglegar að mennta sig, þær eru mikill meirihluti háskólanema, en það dugar ekki ef það skilar þeim ekki betri launum og meiri áhrifum. Það er ánægjulegt að kaup á vændi eru nú bönnuð og að spornað hefur verið við súlustöðum, sem og að búið er að samþykkja kvóta í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga. Það er líka gott hve ráðuneytin og sum sveitarfélaganna hafa tekið sig á í skipan opinberra stjórna, ráða og nefnda í samræmi við 15. gr. jafnréttislaga. Þá verður spennandi að fylgjast með framkvæmd verkefnisins um kynjaða hagstjórn sem er að halda innreið sína í íslenska fjárlagagerð seint og um síðir. Þetta er hins vegar ekki nóg ef ríkjandi menning og hefðir breytast ekki þannig að hlustað sé á raddir kvenna.
 
Það er hins vegar óskemmtilegt að uppstokkun í ríkisstjórninni skuli vera á kostnað kvenna og því miður er konum að fækka í Hæstarétti. Ný könnun á ofbeldi í nánum samböndum sýnir að ofbeldið hefur heldur aukist hlutfallslega frá rannsókn sem gerð var 1996 og einnig að átakanlega skortir á þekkingu og skilning fagstétta á eðli, umfangi og afleiðingum kynbundins ofbeldis. Um 1800 konur á Íslandi höfðu sætt ofbeldi í nánum samböndum undanfarna 12 mánuði áður en könnunin var gerð. Þá er ekki einleikið hve fá ofbeldis- og nauðgunarmál skila sér til dómstóla og hve illa úrræði eins og nálgunarbann eru nýtt. Hefja þarf rannsóknir á ofbeldismönnum og efla úrræði fyrir þá. Lögreglan hefur bent á að ef austuríska leiðin verður lögleidd, þ.e. að ofbeldiamenn verði fjarlægðir af heimili verði að vera til einhver úrræði fyrir þá.

Við höfum verk að vinna við að auðvelda fóki að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf. Það mál snýst ekki aðeins um sveigjanlegan vinnutíma eða fæðingar- og foreldraorlof eins og stundum mætti ætla af umræðunni, heldur ekki síður um aðstöðu fólks á öllum aldri til að sinna öldruðum, sjúkum eða langveikum ættingjum og að hafa tíma fyrir sig og sína. Íslendingar verða sífellt eldri og það mæðir mjög á ættingjum að sinna þeim. Innan Evrópusambandsins er hafin umræða um „ættingjaleyfi“ til að koma til móts við þarfir fjölda fólks í stað þess að sífellt sé verið að skjótast úr vinnunni til að sinna sínum. Þið getið rétt ímyndað ykkur á hverjum umönnunin lendir eins og staðan er nú. Ekkert myndi þó bæta stöðu fjölskyldna eins og það að stytta vinnuvikuna. Er ekki kominn tími til að aðilar vinnumarkaðarins líti á þann kost til að bæta kjör og skapa fleiri störf.

Það verður mikilvægt og spennandi verkefni að auka hlut kvenna í stjórnum og við stjórnun fyrirtækja. Þar er tregðan og andstaðan sem ég nefndi hér að framan greinilega ríkjandi. Margendurteknar rannsóknir leiða í ljós að þar sem bæði kyn koma að stjórnum og stjórnun fyrirtækja er reksturinn betri, hagnaður eykst, ímynd fyrirtækja batnar og starfsandinn blómstrar. Það er því allt að vinna og engu að tapa.

Við sem vinnum að byltingu hugarfarsins, jöfnum tækifærum og jafnri virðingu kvenna og karla erum stundum sökuð um að sjá ekkert annað en menntaðar konur, völd þeirra og áhrif. Því miður er töluvert til í því. Konur sem búa við fátækt, einhæfa vinnu, einangrun og valdaleysi eiga sér formælendur fáa.

Fyrir nokkrum vikum lagðist ég yfir tölur Tryggingastofnunar ríkisins sem auðvitað eru kyngreindar. Þar birtist nöturlegur kynjamunur sem endurspeglar fátækt einstæða mæðra og ábyrgð mæðra á börnum sínum hvort sem um er að ræða fátækt vinnandi kvenna, fötlun móður, meðlag með börnum eða umönnun langveikra barna. Munurinn á konum og körlum er margfaldur. Mun fleiri konur ná háum aldri og þurfa allan þann stuðning trygginganna sem mögulegur er vegna lágra launa fyrrum tíð og takmarkaðs tíma á vinnumarkaði. Launamisréttið bitnar á konum í ellinni ekki síður en meðan þær eru á vinnumarkaði. Sömu sögu er að segja af fötluðum. Mun fleiri konur búa við fötlun, einkum af völdum slitsjúkdóma og þunglyndis en karlar. Hvað býr þar að baki, það þarf að rannsaka rækilega. Þá verð ég að minnast á að við vitum allt of lítið um stöðu kvenna og karla af erlendum uppruna hér á landi og hugsanlega einangrun þeirra, nokkuð sem aðrar þjóðir hafa miklar áhyggjur af.

Síðast en ekki síst er fjarvera karla úr jafnréttisumræðunni himinhrópandi. Jöfn tækifæri til að njóta sín í lífi og starfi er ekkert síður mál karla en kvenna. Íslenskir karlar búa við mjög heftandi staðalímyndir sem hindra þá í að leita á ný mið eins og að gerast leikskóla- eða grunnskólakennarar eða hjúkrunarfræðingar en á þessum sviðum er þeirra sárlega þörf. Karlar sem feta slíkar brautir mæta miklum fordómum með þeim afleiðingum að náms- og starfsval hér á landi er enn afar kynbundið. Það þýðir að við sem þjóð erum ekki að nýta hæfileika fólks sem skyldi og þeir fá ekki að njóta sín.

Eru það staðalímyndir um karlmennsku, rótgróin og íhaldssöm karlamenning sem hindra karla í að ræða stöðu sína? Staðalímyndirnar sem hindrun eru þó aðeins hluti vandans. Með fjarveru sinni koma karlar í veg fyrir breytingar og heykjast við að taka þátt í nauðsynlegri samfélagsumræðu og þjóðfélagsbreytingum sem snúast ekki bara um stöðu kvenna heldur ekki síður karla, völd þeirra, menningu og hegðun. Það verður ekki hjá því komist að ræða ofbeldis- og stríðsmenningu, valdahefðir, pólitískan kúltúr og vinnuhefðir Íslendinga sem setja langan vinnudag í öndvegi. Íslensk þjóð er að gjalda þessa menningu dýru verði og það verður að breyta henni. Ég skora á íslenska karlmenn að vakna og ganga til liðs við baráttuna.

Um leið og við gleðjumst yfir þeim árangri sem náðs hefur í tímans rás er ljóst að framundan er mikið starf við að breyta hugarfari og menningu og kveða niður heftandi staðalímyndir. Við verðum að beina sjónum að valdamönnum, atvinnulífi, foreldrum og skólum á öllum stigum. Verkefnið Jafnrétti í skólastarfi sem Jafnréttisstofa vann með fimm sveitarfélögum á síðasta ári og þessu, leiddi í ljós að þekkingu og meðvitund kennara um jafnrétti kynjanna er mjög ábótavant þrátt fyrir tæplega 35 ára gamalt ákvæði í lögum um skyldur skólanna til að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna. Það þarf að fá fólk til að skilja að allir hafa ávinning af jöfnum réttindum og jöfnum tækifrænum kvenna og karla rétt eins og viðurkennt var í samþykktum SÞ á sínum tíma. Misrétti og mannréttindabrot á ekki að líða en þau eru framin dag hvern. Kynjajafnrétti verður ekki að veruleika af sjálfu sér. Það krefst aðgerða, vilja og ákveðins hugarfars.

Við kváðum niður mæðra- og barnadauða hér á landi fyrir löngu og það var ekki síst verk kvenna sem börðust fyrir heilbrigisþjónustu og tryggingum. Það er okkar stóra verkefni að halda áfram að breyta hugarfarinu þannig að við getum axlað þá ábyrgð að vera meðal hinna fremstu í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna og við verðum að gera okkar besta til að halda efsta sætinu. Það er það besta sem við getum gert til að stuðla að betra samfélagi og betri heimi.