Ábendingar frá Jafnréttisstofu

Jafnréttisstofa telur rétt að minna ráðamenn, atvinnurekendur og alla aðra á ýmis atriði sem varða jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þrátt fyrir erfitt ástand í íslensku samfélagi þá má engan afslátt gefa af jafnrétti kynjanna. Í þeirri endurskipulagningu og uppbyggingu sem verður í kjölfar hruns á fjármálamarkaði felast tækifæri til þess að gera enn betur í jafnréttismálum. Forsenda slíkrar framþróunar er vitneskja um réttindi og skyldur og því vill Jafnréttisstofa benda á eftirfarandi:

Varðandi launajafnrétti:
Greiða skal konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda jöfn laun og þau skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Til dæmis á fólk sem sagt er upp hjá fjármálafyrirtækjum og endurráðið á öðrum kjörum að vera á sömu kjörum, hvort sem um konur eða karla er að ræða. Allir á vinnumarkaði eiga að vera meðvitaðir um þessa ófrávíkjanlega lagaskyldu. Séu breytingar á störfum, lækkun á starfshlutfalli eða því um líkt, þarf að gæta þess að það bitni ekki á öðru kyninu fremur en hinu.

Varðandi uppsagnir:
Atvinnurekendur þurfa að gæta jafnræðis við uppsagnir, gæta þarf að því að uppsagnir bitni ekki á öðru kyninu fremur en hinu.

Varðandi aðgerðir í atvinnumálum:
Stjórnvöld og atvinnulífið verða að gæta þess að aðgerðir í atvinnumálum til að bregðast við ástandi á vinnumarkaði taki mið af báðum kynjum og þeim sem raunverulega eru að missa störf sín. Hætt er við því að störfum við þjónustu ýmiss konar fækki en þar eru konur í meirihluta. Aðgerðir sem gripið verður til þurfa að taka mið af því fólki sem raunverulega missir vinnuna.

Varðandi kynbundna og kynferðislega áreitni:
Það er mikilvægt að atvinnurekendur, yfirmenn stofnana og félagasamtaka séu meðvitaðir um skyldur sínar til að koma í veg fyrir kynbundna og/eða kynferðislega áreitni á vinnustað. Hætta getur verið á því að neikvæð spenna í samfélaginu og í einkalífi geri vart við sig í formi áreitni. Brýnt er því að atvinnurekendur geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt og kynni fyrir sínu starfsfólki hvernig brugðist er við slíkum málum.

Varðandi ofbeldi í nánum samböndum:
Mjög brýnt er að allir séu vakandi fyrir því að ofbeldi í nánum samböndum getur aukist vegna mikillar spennu og ójafnvægis.

Varðandi stefnumótun og ákvarðanatöku:
Mjög mikilvægt er að stjórnvöld vinni eftir þeirri lagaskyldu sem á þeim hvílir samkvæmt jafnréttislögum að gæta kynjasamþættingar við alla stefnumótun og áætlanagerð. Þetta er sérstaklega brýnt núna þegar fram fer endurskipulagning á stórum vinnustöðum sem nú eru í eigu ríkisins og einnig í sambandi við aðgerðir til að bregðast við erfiðu ástandi í samfélaginu. Farsælast er enn fremur að konur og karlar komi jafnt að stefnumótun og ákvarðanatöku, því þá er líklegra að ákvarðanir og aðgerðir verði til góðs fyrir sem flesta.