Breið samstaða um aðgerðir gegn kynbundnum launamun

Stjórnvöld og samtök aðila vinnumarkaðarins hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf til að eyða kynbundnum launamun sem enn er viðvarandi vandi á innlendum vinnumarkaði.Að yfirlýsingunni standa velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Komið verður á fót aðgerðahópi þeirra sem að henni standa og er markmið samstarfsins að eyða kynbundnum launamun. Verkefni hópsins verða meðal annarra að samræma rannsóknir á kynbundnum launamun, gera áætlun um kynningu jafnlaunastaðals og annast upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja. Efnt er til samstarfsins til tveggja ára í tilraunaskyni með möguleika á framlengingu standi vilji til áframhaldandi samstarfs.

Viljayfirlýsing um samstarf til að eyða kynbundnum launamun