Breytingar á fæðingarorlofi í Noregi

Norska ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur um nýtt fyrirkomulag á fæðingarorlofi sem byggist á því að jafna ábyrgð og tækifæri beggja foreldra til að sinna nýfæddu barni. Breytingin minnir nokkuð á það kerfi sem tekið var upp hér á landi árið 2000 en gengur nokkuð lengra. Í fyrsta lagi er sérstakt tillit tekið til þess að mæður þurfi hvíld frá vinnu fyrir fæðingu og fá þær þriggja vikna orlof á launum fyrir fæðingu barns sem ekki skerðir orlofið sem hefst eftir fæðingu barnsins. Síðan fær móðirin 12 vikur, faðirinn 12 og síðan er sameiginlegt orlof í 20 vikur ef tekin er full greiðsla eða samtals 44 vikur. Einnig er hægt að taka 80% greiðslu og þá verður sameiginlega orlofið lengra eða 30 vikur, eða 54 vikur. Hér á landi er orlofið að jafnaði 3 + 3 + 3 mánuðir og taki verðandi móðir sér leyfi fyrir fæðingu skerðir það fæðingarorlofið. Því er mjög algengt að verðandi mæður fari í veikindaleyfi. Þegar hafist verður handa við að bæta kerfið að nýju eftir niðurskurð undanfarinna ára er þetta eitt þeirra atriða sem þarf að skoða, þ.e. að viðurkenna þá sérstöðu að konur fæða börn og þurfa hvíld bæði á undan og eftir.  

Verði þessar tillögur að veruleika sigla Norðmenn fram úr okkur í stuðningi við foreldra og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim verður tekið. Umræðan í Noregi að undanförnu hefur annars vegar gengið út á það að ekki megi auka orlof feðra á kostnað mæðra og hins vegar að ríkisvaldið eigi ekki að skipta sér af því hvernig foreldrar skipuleggja uppeldi og umönnun barna sinna með lagasetningu. Í raun þýðir þetta síðara, rök sem hafa verið áberandi hjá ýmsum trúarsöfnuðum, að það eigi ekki að hvetja feður til aukinnar þátttöku í uppeldi barna og heimilisstöfum, heldur beri að styrkja hina „hefðbundnu“ fjölskyldu þar sem það er hlutverk móðurinnar að annast börn og bú.  

Svona lítur tillagan út í fréttatilkynningu norsku ríkisstjórnarinnar:
Regjeringens forslag til en tredeling av foreldrepengeperioden:

Dekningsgrad Før fødselMødrekvote Fedrekvote  Fellesdel
100 prosent (47 uker)3 uker 12 uker 12 uker  20 uker
80 prosent (57 uker)3 uker 12 uker12 uker 30 uker


 
Frekari upplýsingar má sjá hér