Drög að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur undirbúið tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2010–2014. Framkvæmdaáætlunin hefur verið kynnt í ríkisstjórn og lögð fram í þingflokkum og er gert ráð fyrir að hún verði lögð fyrir Alþingi í haust sem tillaga til þingsályktunar.

Áætlunin er unnin í samráði við einstök ráðuneyti, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð. Einnig var við gerð hennar höfð hliðsjón af umræðum sem fram fóru á jafnréttisþingi sem haldið var í janúar 2009 og skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem var birt þegar þingið var haldið. Framkvæmdaáætlunin er nú birt til umsagnar á vef ráðuneytisins og gefst fólki kostur á að senda ráðuneytinu ábendingar sínar og athugasemdir til 15. ágúst næstkomandi.
Styrkari staða jafnréttismála í stjórnkerfinu
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009 var mörkuð stefna um að styrkja stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu. Sett var á fót ráðherranefnd um jafnrétti kynja undir forystu forsætisráðherra sem falið var það hlutverk að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Hlutverk ráðherranefndarinnar er meðal annars að fylgja því eftir að framkvæmdaáætluninni sé hrint í framkvæmd. Gert er ráð fyrir að árlega verði veittar 10 milljónir króna af fjárlögum til að styðja við framkvæmd hennar og er þá miðað við að ráðuneyti geti sótt um úthlutun af því fé til að innleiða aðgerðir, tillögur og ný verkefni sem varða verkefni í áætluninni sem heyra undir þau.

Brýnustu verkefnin á sviði jafnréttismála
Í þeirri tillögu að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem hér er kynnt er fjallað um þau verkefni sem ríkisstjórnin telur brýnust á sviði kynjajafnréttis. Þar ber hæst átak í því að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnkerfisins í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Áhersla er lögð á kynjaða hagstjórn og aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun og jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, meðal annars með því að samræma betur atvinnu- og fjölskyldulíf. Einnig eru í áætluninni lagðar til aðgerðir til að styðja við hvers kyns sköpun og frumkvöðlastarfsemi og leiðir til að styrkja stöðu kvenna á sviði sveitarstjórnarmála. Þá er fjallað um gerð áætlunar um jafnrétti í skólastarfi á öllum skólastigum allt frá leikskóla til háskóla og endurskoðun aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi, svo fátt eitt sé nefnt.

Umsagnarfrestur til 15. ágúst
Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum er aðgengileg á vef ráðuneytisins til umsagnar og gefst fólki kostur á að senda ráðuneytinu ábendingar sínar og athugasemdir til 15. ágúst næstkomandi. Auk tillögunnar er hér birt skýrsla félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála ásamt viðaukanum; Jafnrétti í tölum, sem lögð var fyrir jafnréttisþing árið 2009. Skýrslu ráðherra fylgir einnig viðauki sem greinir frá þróun jafnréttismála frá því að þingið var haldið.

Ábendingar og athugasemdir skal senda á netfang ráðuneytisins: postur@fel.stjr.is Vinsamlega skrifið í efnislínu: „Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum“

Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára 2010-2014

Skýrsla félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála ásamt Jafnrétti í tölum (janúar 2009)

Viðauki við skýrslu félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála