Er ákvarðanataka í leikskólamálum tekin út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum?

Undanfarið hafa borist fréttir af breytingum innan leikskólamálaflokksins hjá einstaka sveitarfélögum. Á grundvelli lagaskyldu sveitarfélaganna ber þeim að leggja mat á kynja- og jafnréttisáhrif slíkra ákvarðana sem og annarra. Sveitarfélögin þurfa að afla allra þeirra gagna sem mögulega geta varpað ljósi á áhrifin á ólíka hópa foreldra, greina gögnin og taka ákvarðanir út frá þeim því ekki er hægt að ganga út frá því að ákvörðunin hafi sömu áhrif á alla foreldra.

Jafnréttisstofa hvetur sveitarfélög til að hafa eftirfarandi spurningar að leiðarljósi við ákvarðanatöku:

  • Hvert er markmið sveitarfélagsins með ákvörðuninni?
  • Hvernig samræmist leiðin sem valin er markmiðinu?
  • Hvaða samráð hefur verið haft við hagsmunahópa?

Fyrir liggja ýmis gögn sem sveitarfélögin geta kynnt sér til að undirbyggja ákvarðanir út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum:

Að gefnu tilefni minnir Jafnréttisstofa á að sveitarfélög eiga nú að hafa samþykkt áætlun um jafnréttismál fyrir kjörtímabilið. Þar á meðal annars að koma fram hvernig unnið verði að kynja- og jafnréttissjónarmiðum á öllum sviðum. Áætlunin skal taka til markmiða og aðgerða til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu sveitarfélagsins og starfsmannamálum. Það felur í sér að stefnumótunarferli sé skipulagt, bætt, þróað og lagt á það mat þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir.

Markmið og aðgerðir sveitarfélaganna eiga að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Jafnframt eiga sveitarfélögin að vinna gegn fjölþættri mismunun, þ.e. að einstaklingum sé mismunað á grundvelli fleiri en einnar af þessum ástæðum þar sem þessir hópar eru oft í viðkvæmri stöðu.