Fæðingar- og foreldraorlof á Íslandi

Í nýrri skýrslu Ingólfs V. Gíslasonar er greint frá niðurstöðum rannsóknar um fæðingarorlof feðra hér á landi og þeim samfélagslegu áhrifum sem það hefur haft. Þátttaka feðra í fæðingarorlofi nemur um 90 prósentum og vafalaust eru fleiri feður en nokkru sinni fyrr virkir við umönnun barna sinna.


Í skýrslunni er rakinn aðdragandinn að þeirri stefnu sem löggjöfin tók árið 2000, breytingarnar sem voru gerðar og þær væntingar sem þeim breytingum fylgdu. Einnig er fjallað um nýtingu feðra á orlofsrétti sínum og þeim árangri sem lögin hafa skilað. Að lokum eru árhif laganna á íslenskt samfélag rædd og tillögur til breytinga lagðar fram.

Helstu niðurstöður eru þær að breytingunum var afar vel tekið í samfélaginu og hafa feður nýtt sér þennan nýja rétt sinn í ríkari mæli en búist var við. Viðhorf til stöðu og möguleika karla og kvenna varðandi fjölskyldulíf og heimili hafa breyst og staða feðra hefur styrkst ásamt því að frjósemi íslensku þjóðarinnar hefur aukist. Á heildina litið hafa lögin um fæðingar- og foreldraorlof haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og stuðlað að því að auka og jafna möguleika karla og kvenna í tilverunni.

Hér má lesa skýrsluna í heild.

Skýrslan var einnig gefin út á ensku.