- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Aukinn fjölbreytileiki styrkir vinnustaði og eykur samkeppnishæfni þeirra. Ávinningur vinnustaða af fjölbreytileika er mikill því með fjölbreyttum mannauði eru vinnustaðir betur í stakk búnir að takast á við fjölbreyttar áskoranir til dæmis í rekstri, framleiðslu og þjónustu.
Flókin vandamál verða auðleystari með aðferðafræði fleiri en einnar fræðigreinar og þegar starfsfólk með ólíkan bakgrunn og reynslu leggst á eitt.
Þjónusta verður betri og nær til breiðari hóps. Á sumum vinnustöðum er markvisst unnið að því að stuðla að fjölbreytileika meðal starfsfólks. Aðrir vinnustaðir eru þegar með fjölbreyttan mannauð en skortir tæki og tól til að nýta sér þá auðlind sem felst í fjölbreytileikanum. Mikilvægt er að greina hæfni og þekkingu starfsfólks og byggja á þeim grunni sem er til staðar til að bæta vinnustaðinn, auka framlegð og skapa gott orðspor. Til að tryggja fjölbreytileika þarf að hafa í huga við ráðningar að nýir starfsmenn auðgi þann hóp sem fyrir er. Einnig er mikilvægt að stjórnendur séu góðar fyrirmyndir, þeir séu af öllum kynjum, á mismunandi aldri og með fjölbreytta starfsreynslu og menntun.
En fjölbreytileika á vinnustað fylgja einnig áskoranir. Nærtækt er að nefna tungumála- og menningarlegar hindranir. Ólíkir einstaklingar hafa ólíka sýn, sjá ekki sömu tækifæri og lausnir. Þannig getur ávinningur fjölbreytileika snúist upp í andhverfu sína ef ekki er haldið vel í stjórnartaumana. Vinnustaðir verða að hafa skýra stefnu og varða leiðina. Í fjölbreyttum og góðum starfshópi þekkja allir sitt hlutverk og sína stöðu og mikilvægt er að muna að utanaðkomandi þættir samfélagsins hafa mismunandi áhrif á starfsfólk og þar með inn á vinnustaðinn.
Einn veigamikill hluti fjölbreytileikans felst í þjóðerni og þjóðernisuppruna en erlendir ríkisborgarar eru 14% íbúa á Íslandi og þeim mun aðeins fjölga á næstu árum. Rík þörf hefur verið fyrir erlenda starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði á síðustu árum og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Hlutfall erlendra ríkisborgara er enn hærra þegar aðeins er horft til vinnumarkaðarins. Um 23% alls starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði eru erlendir ríkisborgarar. Þá speglast fjölbreytileiki m.a. í kyni, fötlun, skertri starfsgetu, aldri og kynhneigð.
Samtök atvinnulífsins fara ekki varhluta af áhrifum fjölbreytileikans á almennum vinnumarkaði og mikilvægi þess að hlúa að honum. SA leggja sín lóð á vogarskálarnar með greiningu á stöðunni, átaksverkefnum og stöðugu samtali við atvinnulífið, enda ljóst að breytingin á íbúasamsetningu landsins síðustu ár er komin til að vera og þróast.
Liður í árvekni SA er nóvembermánuður jafnréttis og fjölbreytileika þar sem fræðsluefni er gefið út til félagsmanna, fræðslufundir haldnir og opnu samtali haldið á lofti við atvinnurekendur sem tekur á áskorunum sem og ávinningi. Þá er mikilvægt að hampa því sem vel er gert og þar hafa Hvatningarverðlaun jafnréttismála skipað stærstan sess undanfarin ár. Í ár er flokkunum fjölgað í þrjá með áherslu á kynjajafnrétti, fjölmenningu og fötlun. Sigurvegurum þessara þriggja flokka verða veitt verðlaun við hátíðlega streymisathöfn í samstarfi við Háskóla Íslands þann 30. nóvember nk.
Ávinningur trompar áskoranir þegar kemur að fjölbreytileika þar sem kraftar og hæfileikar fjölbreytts mannauðs fela í sér mikil verðmæti. Rannsóknir sýna að vinnustaðir sem ná að virkja hina ólíku hæfileika og kosti innan fjölbreytts starfshóps eru líkleg til að ná betri árangri. Því er óhætt að segja að fjölbreytileiki á vinnustöðum styrki atvinnulífið og auki samkeppnishæfni. Fjölbreytt og sameinuð sköpum við frekari velsæld.
Myndband um jafnréttisáætlanir fyrirtækja og hvað þarf að vera í þeim:
Höfundur greinar: Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins