Fræðslufundir í fyrirtækjum um gerð jafnréttisáætlana

Um þessar mundir býður Jafnréttisstofa fyrirtækjum fræðslufundi um gerð aðgerðabundinna jafnréttisáætlana. Í jafnréttislögum segir að fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skuli setja sér aðgerðabundna jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína.
Fræðslufundir Jafnréttisstofu skila aukinni þekkingu á skyldum fyrirtækja þegar kemur að jöfnum tækifærum og stöðu kynjanna á vinnumarkaði og auðvelda fyrirtækjum að búa til markvissa jafnréttisáætlun sem miðar að því að auka lífsgæði og starfsánægju starfsfólks.  Á fundunum er m.a. fjallað um gagnsemi jafnréttisáætlana og hvernig hægt er að setja skýr markmið og fylgja þeim eftir ásamt því að auðvelda vinnu við innleiðingu jafnréttisáætlunar.

Í janúar hafa allnokkur fyrirtæki sóst eftir fræðslufundi um gerð jafnréttisáætlana og hefur sérfræðingur Jafnréttisstofu nú þegar heimsótt fyrirtækin Te &Kaffi, Vodafone, Kjarnafæði, Hampiðjuna, Airport Associates og Reykjavík Lights Hotel. Fundir með stjórnendum, starfsmanna- og fræðslustjórum þessara fyrirtækja hafa verið mjög fróðlegir og skilað sér í aukinni þekkingu á jafnréttislöggjöfinni og aðgerðum sem stuðla að kynjajafnrétti.

Fræðsla Jafnréttisstofu getur hentað sem innlegg á starfsmannafundum, sem fræðsluerindi í hádegi eða við önnur tækifæri. Ef þitt fyrirtæki hefur áhuga á fræðslufundi vinsamlegast hafið þá samband við Jafnréttisstofu – jafnretti@jafnretti.is