Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til umræðu

Í félags- og tryggingamálaráðuneyti er nú unnið að undirbúningi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum eins og kynnt var á nýliðnu jafnréttisþingi. Fyrir þingið var lagt vinnuskjal, merkt umræðugrundvöllur, sem lýsti helstu áherslum í væntanlegri tillögu. Áhugasamir geta lagt sitt af mörkum við gerð tillögunnar og sent ráðuneytinu ábendingar á Netinu. Frestur til að skila inn ábendingum rennur út 10. febrúar.Umræðugrundvöllurinn er nú aðgengilegur á heimasíðu félags- og tryggingamála¬ráðuneytisins, en hann var lagður fyrir jafnréttisþingið sem haldið var 16. janúar í samræmi við ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samkvæmt lögunum skal félags- og tryggingamálaráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs. Nýmæli er að við gerð þingsályktunartillögunnar skal höfð hliðsjón af umræðum á jafnréttisþingi.
Vinnuskjal þetta ásamt formi til útfyllingar fyrir þá sem vilja koma á framfæri tillögum og ábendingum um efni nýrrar framkvæmdaáætlunar hefur nú verið birt á vef félags- og tryggingamálaráðuneytis.