Fyrsta jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar

Jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar var í fyrsta sinn veitt í Mosfellsbæ 17. maí sl. og hlaut Varmárskóli virðurkenninguna fyrir árið 2005.Það sem Fjölskyldunefnd lagði til grundvallar vali sínu var jafnréttisáætlun skólans og framgangur hennar. Jafnréttisáætlun Varmárskóla er alhliða áætlun um jafnrétti og mannréttindi einstaklinga, sem hefur það að markmiði að stuðla að því að allir eigi jafnan rétt og beri jafnar skyldur og að einstaklingum sé ekki mismunað.

Skólinn hefur auk þess unnið að sérstöku átaki gegn einelti, en vinna allra starfsmanna að því verkefni hefur stuðlað að jafnræði allra einstaklinga, bæði nemenda og hinna fullorðnu, í daglegu starfi skólans.

Í stefnunni kemur einnig fram að Varmárskóli ætlar að vera málsvari jafnréttis, skóli þar sem nemendur og starfsmenn fá notið sín án tillits til fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar eða annarrar menningarlegrar stöðu.

Aðstaða nemenda til náms og annarrar starfsemi innan skólans skal vera jöfn óháð kynferði, kynhneigð, útliti, trúarskoðun eða uppruna og hefur því verið fylgt vel eftir í Varmárskóla og hefur verið unnið sérstaklega vel að móttöku og aðlögun barna af erlendu bergi brotnu og er til mikillar fyrirmyndar hvernig staðið hefur verið að starfinu með börnunum og stuðningi við fjölskyldur þeirra.

Í jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar er kveðið á um að fyrirtæki og stofnanir í Mosfellsbæ sem hafa 25 eða fleiri starfsmenn setji sér jafnréttisstefna og er víst að vinna Varmárskóla muni verða hvatning til annarra um að setja sér jafnréttisstefnu og tryggja framgang hennar.