Fyrsta skýrsla eftirlitsnefndar um stöðu innleiðingar Istanbúlsamningsins á Íslandi

GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með Istanbúlsamningnum hefur gefið út fyrstu stöðuskýrsluna um innleiðingu á ákvæðum samningsins á Íslandi. Íslensk stjórnvöld svöruðu ítarlegum spurningalista haustið 2021 og s.l. vor heimsóttu fulltrúar nefndarinnar Ísland og áttu fundi með ýmsum opinberum aðilum, þ.á.m. fulltrúum Jafnréttisstofu og frjálsum félagasamtökum.

Nefndin fagnar sérstaklega ráðstöfunum þeim sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til undanfarin misseri til að standa vörð um réttindi kvenna, t.d. í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og með aðgerðum til að minnka kynbundinn launamun. Íslensk stjórnvöld hafa aðlagað íslenska löggjöf og reglugerðir að kröfum Istanbúlsamningsins, svo sem kröfuna um samþykki í nauðgunar- og kynferðisbrotum, ákvæði um ofbeldisbrot í nánum samböndum og ákvæði er varða stafrænt kynferðisofbeldi. Eftirtektarverð þykir GREVIO nefndinni fjölbreytt nálgun íslenskra stjórnvalda á viðfangsefninu, svo sem með því að ráðast í ýmis konar vitundarvakningar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og árlegri greiningu á stöðu kynjanna á flestum þeim málefnasviðum sem fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp taka til.

Meginathugasemdir GREVIO snúa að samhæfingu í viðbrögðum og forvörnum. Koma þarf upp miðlægri stýringu, bæta og skýra þarf verklag þeirra aðila sem koma að málum, samræma þarf gagnaöflun og samþætta alla þjónustuna, sérstaklega er þá horft til lögreglu, ákæruvalds, dómskerfis og heilbrigðiskerfis. Styrkja þarf þær stofnanir sem um ræðir bæði fjárhagslega og þekkingarlega til þess að búa til skilvirkara kerfi. Hraða þarf málsmeðferð og skoða lágt hlutfall sakfellinga í nauðgunar- og ofbeldismálum. Koma ætti upp neyðarlínu sem er opin allan sólarhringinn og einnig eru gerðar athugasemdir við það að þolendum sé ekki tryggð tafarlaus aðstoð sálfræðings vegna biðlista. Einnig þarf að bæta lagaumhverfi og þjónustu til að tryggja vernd kvenna sem verða fyrir umsáturseinelti, þvinguðum umskurði eða ófrjósemisaðgerð, heiðurtengdu ofbeldi, þvinguðu hjónabandi eða annars konar margþættri kerfisbundinni mismunun. Í umgengnis- og forsjármálum ber samkvæmt nefndinni að tryggja betur öryggi barna og þess foreldris sem er þolandi.

Istanbúlsamningurinn

Samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúlsamningur, var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag.

Um er ræða fyrsta bindandi samninginn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Í megindráttum kveður hann á um skyldur opinberra aðila til að:

  • Tryggja réttindi brotaþola
  • Vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi
  • Fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila
  • Sinna forvörnum gegn ofbeldi
  • Bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 2020 – 2023 er áætlað að tryggja framkvæmd Istanbúlsamningsins. Skipaður hefur verið starfshópur um gerð landsáætlunar og mun hópurinn líta til niðurstöðu GREVIO nefndarinnar við þá vinnu.

Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni: https://rm.coe.int/grevio-inf-2022-26-eng-final-report-on-iceland/1680a8efae