Góðar heimtur á jafnréttisáætlunum sveitarfélaga

Jafnréttisstofa hefur tekið á móti og samþykkt jafnréttisáætlanir hjá 54 af 74 sveitarfélögum landsins. Þetta eru heimtur upp á 73%, sem telst mjög góður árangur.

Í samræmi við 12. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum  frá öllum sveitarfélögum í október 2015. Jafnréttisstofa fór yfir allar innsendar jafnréttisáætlanir og gerði athugasemdir við þær kom með  ábendingar eftir því sem átti við. Um mánaðamótin júní/júlí var verkefninu lokið af hálfu Jafnréttisstofu, en þá var ítrekað búið að hafa samband við þau sveitarfélög sem ekki voru búin að senda inn jafnréttisáætlanir til samþykktar. Jafnréttisstofa tekur að sjálfsögðu enn á móti jafnréttisáætlunum frá þeim sem ekki hafa skilað áætlun til samþykktar ennþá.

Til að skoða skilin nánar hefur Jafnréttisstofa skipt sveitarfélögunum í þrjá flokka eftir stærð, sjá nánar í meðfylgjandi töflu:


Það er ekki óeðlilegt að hlutfallstalan sé lægst hjá minnstu sveitarfélögunum. Þetta er stærsti flokkurinn, með 42 sveitarfélög. Í framhaldi af samskiptum við minnstu sveitarfélögin, sem bæði hafa fáa íbúa og mjög litla starfsemi,  var  ákveðið að skoða kröfur til þeirra sérstaklega. Í sumum þessara sveitarfélaga  er t.d. aðeins starfsmaður í hálfu starfi og þjónustusamningar við nærliggjandi sveitarfélög um nánast alla þjónustu og starfsemi. Þrátt fyrir að í jafnréttislögum sé ekki gerður neinn greinarmunur á sveitarfélögum eftir stærð, þá telur Jafnréttisstofa að það verði að túlka kröfur laganna þannig að þær taki tillit til raunverulegrar stöðu.

Jafnréttisstofa leggur til að nú, þegar haldið er upp á 40 ára afmæli jafnréttislaga, þá væri vert að endurskoða ákvæði um jafnréttisáætlanir í lögunum. Ráðherra hefur heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, sbr. 33. gr. Sú heimild hefur ekki verið nýtt en full ástæða væri til þess að útfæra nánar þær kröfur sem gerðar eru í 12. gr. laganna til sveitarfélaganna.  

Seinna á árinu mun Jafnréttisstofa, í samræmi við 2. mgr. 12. gr. jafnréttislaga, óska eftir skýrslum frá sveitarfélögunum um stöðu og þróun jafnréttismála. Jafnframt mun Jafnréttisstofa verða í sambandi við minnstu sveitarfélögin í haust eins og um var samið.

Jafnréttisstofa þakkar öllu því fólki hjá sveitarfélögunum sem stofnunin hefur verið í samskiptum við í  þessu verkefni  fyrir góð viðbrögð og gott samstarf.