Handbók um kynjasamþættingu

Jafnréttisstofa hefur gefið út handbókina Jöfnum leikinn en hún fjallar um kynjasamþættingu. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er kveðið á um í 1. gr. að unnið skuli að jafnrétti kynjanna hér á landi með því að beita kynjasamþættingu. Kynjasamþætting felur í sér að spurt sé ákveðinna spurninga og ákveðinni aðferðafræði beitt við alla ákvarðanatöku og stefnumótun, hvort sem um er að ræða stjórnvöld eða atvinnulíf. Þróaðar hafa verið ýmsar aðferðir, svo sem gátlistar og greiningarmódel til að beita við kynjasamþættingu.

Handbókin er mjög hagnýt við framkvæmd kynjasamþættingar en í henni er farið í gegnum skilvirkar aðferðir auk þess sem dæmi eru gefin um íslensk samþættingarverkefni. Dæmin sýna hvernig stuðla má að auknum gæðum í þjónustu og öllum starfsháttum stofnana og fyrirtækja með jafnrétti að leiðarljósi.

Útgáfa handbókarinnar er hluti af verkefninu Samstíga eða Side by Side sem styrkt er af PROGRESS-sjóði Evrópusambandsins.
Í tengslum við útgáfuna er boðið upp á námskeið um kynjasamþættingu sem sniðin eru að þörfum þeirra sem sækja þau hverju sinni.

Bókina má nálgast hér en einnig hjá Jafnréttisstofu.

Nánari upplýsingar verkefnið má finna á heimasíðunni  www.samstiga.is