Hlutfall hvors kyns skal vera minnst 40%

Að undanförnu hafa orðið töluverðar umræður um hlut kvenna í stjórnum og við stjórnun fyrirtækja á Íslandi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja og sem stjórnendur er afar lágt. Samkvæmt nýlegri könnun Hagstofunnar eru karlar níu af hverjum tíu framkvæmdastjórum, stjórnarformönnum og stjórnarmönnum fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri. Þar segir einnig að á tímabilinu 1999–2007 hafi kynjaskipting stjórnarmanna og stjórnarformanna nánast verið sú sama, 20% konur og 80% karlar. Samkvæmt 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 skal gæta jafnréttis kynjanna við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Hlutfallið skal vera minnst 40% í stjórnum sem hafa fleiri en þrjá fulltrúa. Þetta er lagaskylda sem nær einnig til opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélög eru aðaleigendur að. Samkvæmt 18. grein laganna skulu atvinnurekendur leggja sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Á undanförnum mánuðum hafa stjórnir verið skipaðar í fjölda fyrirtækja sem nú eru í umsjá Eignarhaldsfélagsins Vestía sem er dótturfélag Landsbankans. Í mörgum þessara stjórna sitja eingöngu karlar. Það er brot á jafnréttislögum.

Það er því ánægjulegt að fráfarandi stjórn Landsbankans skuli nú hafa gripið í taumana og ákveðið að marka þá stefnu að fjölga konum í stjórnunarstörfum innan bankans og í þeim fyrirtækjum sem undir hann heyra upp í minnst 40% fram til ársins 2013. Þessi áætlun er í samræmi við þann samning sem gerður var milli aðila á almennum vinnumarkaði. Það er þó vert að minna enn og aftur á að Landsbankinn er í eigu ríkisins - almennings í landinu – og því ber honum sem og Bankasýslunni, ríkisstofnuninni sem skipar bankastjórnina, að virða 15. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna. Það gerðist þegar ný stjórn Landsbankans var skipuð í gær (18. febrúar) þar sitja nú tvær konur og tveir karlar fyrir hönd Bankasýslunnar og eins hagar til með varamenn. Svo er að sá hvernig skilanefnd bankans stendur sig en hún skipar fimmta fulltrúann.


Kristín Ástgeirsdóttir
Framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.