Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum 44%

Við síðustu sveitarstjórnakosningar, þann 31. maí í ár, jókst hlutfall kvenna meðal kjörinna fulltrúa nokkuð. Hlutfall kvenna náði 40% í kosningum árið 2010 en er nú orðið 44%. Tölur síðustu þrjá áratugi sýna mjög afgerandi og skýra þróun í átt til aukins jafnréttis í sveitastjórnum.Mynd: Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum frá 1978-2014

Það vakti sérstaka athygli árið 2010 að hlutfall kvenna í sveitarstjórnum náði þeim áfanga að vera 40%. Í jafnréttislögum er einmitt kveðið á um að við „skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða“. 

Þó að jafnréttislög nái vitaskuld ekki til kosninga í sveitarstjórnir er ljóst að hér hefur átt sér stað þróun í átt til aukins lýðræðis og jafnari áhrifa kynjanna í ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstiginu. Þessu ber að fagna um leið og Jafnréttisstofa hvetur sveitarstjórnir til þess að huga sérstaklega að ákvæðum jafnréttislaga við skipan í nefndir og ráð. Jafnréttisstofa mun á næstunni taka saman upplýsingar um nefndir og ráð á vegum sveitarfélaga í því augnamiði að koma á framfæri athugasemdum við ranga skipan.