Innköllun jafnréttisáætlana

Innköllun er hafin á jafnréttisáætlunum hjá fyrirtækjum með 250 starfsmenn og fleiri. Þessi fyrirtæki eiga lögum samkvæmt að hafa öðlast jafnlaunavottun í lok þessa árs.

 Aðgerðabundin jafnréttisáætlun á grundvelli 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er ein forsenda þess að fyrirtæki og stofnanir fái jafnlaunavottun. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 skulu fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Sérstaklega skal þar kveðið á um markmið og gerð áætlun um hvernig starfsfólki eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.-22. gr. laganna. Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti.

 Í 1. mgr. 18. gr. koma jafnframt fram ýmsar skyldur sem á atvinnurekendur eru lagðar og taka þarf á í jafnréttisáætlun. Þar segir m.a. að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Ennfremur skal sérstök áhersla lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með því að lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé framfylgt. Í ljósi þess kallar Jafnréttisstofa reglulega  eftir jafnréttisáætlunum og skýrslum um stöðu og þróun jafnréttismála frá fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri . Í byrjun þessa árs lauk innköllun jafnréttisáætlana hjá opinberum stofnunum og skiluðu rúmlega 90% stofnanna umbeðnum gögnum til Jafnréttisstofu.