Innköllun jafnréttisáætlana

Fyrirtæki og stofnanir með 250 starfsmenn eða fleiri

Jafnréttisstofa er þessa dagana að ljúka innköllun jafnréttisáætlana frá fyrirtækjum og stofnunum með 250 starfsmenn eða fleiri. Innköllunin náði til 115 fyrirtækja og skiluðu tæp 90% (103) þeirra fullnægjandi áætlunum. Sjö fyrirtæki hafa fengið loka ítrekun og fimm eru í frekari skoðun.

Í febrúar hefst innköllun á jafnréttisáætlunum sveitarfélaga en samkvæmt jafnréttislögum skulu sveitarfélögin setja sér nýja jafnréttisáætlun eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar. Rúmlega tuttugu sveitarfélög eru með 250 starfsmenn eða fleiri og eiga þ.a.l. að ljúka jafnlaunavottun á árinu.

Samþykkt aðgerðabundin jafnréttisáætlun á grundvelli 18. gr. jafnréttislaga er ein forsenda jafnlaunavottunar en auk þess þarf að marka stefnu í jafnlaunamálum og framkvæma a.m.k. eina launagreiningu.

Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd laganna og kallar reglulega eftir jafnréttisáætlunum frá fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri. Í haust hefst innköllun jafnréttisáætlana hjá fyrirtækjum og stofnunum með 150-249 starfsmenn. Ári síðar tekur við innköllun jafnréttisáætlana hjá fyrirtækjum með 90-149 starfsmenn og haustið 2021 er svo komið að fyrirtækjum með 25-89 starfsmenn.

Samkvæmt 18. gr. jafnréttislaga skulu fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri afhenda Jafnréttisstofu „afrit af jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu sinni ef jafnréttisáætlun er ekki fyrir hendi ásamt framkvæmdaáætlun þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því. Enn fremur skulu fyrirtæki og stofnanir … afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um framgang mála þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því innan hæfilegs frests.“

Auk eftirlits með framkvæmd jafnréttislaga veitir Jafnréttisstofa ráðgjöf og sinnir fræðslu í tengslum við jafnrétti kynjanna. Stór hluti af innköllun jafnréttisáætlana felst í stuðningi og ráðgjöf við gerð slíkra áætlana.

Með nýjum lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna einskorðast hlutverk Jafnréttisstofu ekki lengur við kynjajafnrétti. Samkvæmt 5. gr. beggja þessara laga er Jafnréttisstofu falið að annast framkvæmd þeirra. Jafnréttisstofa hvetur því fyrirtæki til að taka mið af því við gerð jafnréttisáætlana að það er á ábyrgð atvinnurekenda að vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði. Skulu atvinnurekendur sérstaklega vinna að jafnri meðferð starfsmanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og koma í veg fyrir mismunun vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.