Jafnrétti í skólastarfi

Vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri verður haldin laugardaginn 1. apríl 2017 í samstarfi við Jafnréttisstofu. Þema ráðstefnunnar er jafnrétti í skólastarfi og er efni hennar ætlað að höfða til allra skólastiga.

Aðalfyrirlesarar verða Dr. Guðný Guðbjörnsdóttir og  Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, en þau eru bæði prófessorar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Einnig munu nemendur við Verkmenntaskólann á Akureyri fjalla um upplifun sína og reynslu af kynjafræðiáfanga í framhaldsskóla. Auk aðalfyrirlestra verður boðið upp á 23 málstofuerindi og/eða smiðjur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að jafnrétti í skólastarfi í víðum skilningi. 

Samkvæmt gildandi menntastefnu er jafnrétti einn af grunnþáttum menntunar.  Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi er öllum ætlað að  taka virkan þátt í að skapa samfélag sem byggir á þessum gildum. Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær samkvæmt námskrá til eftirfarandi þátta; kyns, kynhneigðar, kynvitundar, menningar, litarháttar, ætternis, þjóðernis, tungumáls, trúarbragða, lífsskoðana, fötlunar, stéttar, búsetu og aldurs.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri á slóðinni http://www.msha.is