Jafnrétti í skólum

Er kynjaskipting í skólastarfi leiðin að jafnréttisþjóðfélagi? Getur aukið jafnrétti kynjanna stöðvað fólksflóttann frá landsbyggðinni? Norræna ráðherranefndin, Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Jafnréttisstofa stóðu að tveimur norrænum ráðstefnum á liðnu ári þar sem rætt var um jafnréttishlutverk skólans. Nú er komin út skýrslan „Ligestilling i Norden“ með erindum og umræðum frá ráðstefnunum.

Jafnrétti er yfirlýst markmið í löggjöf norrænu ríkjanna. En hvernig hefur tekist að samþætta kynjasjónarmið í skólastarfi, brjóta niður gömul vígi og skapa rými fyrir nýjungar? Íslendingar gegndu formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2009. Af því tilefni stóð Jafnréttisstofa að norrænum ráðstefnum, í Færeyjum og á Íslandi, þar sem kennarar, fræðimenn og stjórnmálamenn ræddu stöðu jafnréttismála í skólum og hvernig mætti bæta hana.

Umræðan skiptist í þrjá flokka:

• Kynjafræði og kennaramenntun
• Kynbundið náms- og starfsval
• Kynjaskiptingu í skólastarfi

Mikilvægt er að flétta kynjafræði inn í kennaranám til þess að kennarar framtíðarinnar geti undirbúið nemendur undir líf og störf í jafnréttissamfélagi. Íslensk könnun meðal kennaranema afhjúpaði takmarkaða meðvitund þeirra um kynjasjónarmið í uppeldi barna. Þá hefur reynst erfitt að fylgja eftir ákvæðum jafnréttislaga á þessum sviðum þar sem kynjasjónarmið hafa ekki verið samþætt löggjöf á menntasviði.

Kynjaskipting vinnumarkaðarins endurspeglast í náms- og starfsvali æskufólks. Í góðæri láta ungir karlar freistast af vel launuðum störfum en konur velja að halda áfram námi í von um að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Í Svíþjóð hefur sveitarfélagið Jokkmokk brugðist við neikvæðri byggðaþróun með því að leggja áherslu á jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum í von um . að halda í ungar konur sem annars flytja á brott.

Kynjaskipting í skólastarfi er ekki ný af nálinni en er hún kennsluform framtíðarinnar á leið okkar til aukins jafnréttis? Þrettán skólar vinna nú í anda Hjallastefnunnar þar sem skólastarf er kynjaskipt til þess að tryggja báðum kynjum jöfn tækifæri til náms. Breski prófessorinn Mike Younger lagði hins vegar áherslu á fjölbreytileika innan raða kynjanna og hafnaði eðlishyggju, þ.e. að strákar og stelpur fæðist með ákveðna eiginleika, þegar hann greindi frá árangri átaks til að bæta námsárangur drengja. Meðal annarra mála sem rædd voru var hvað staðlaðar kynjaímyndir eru lífseigar í barnabókmenntum.

Norræna ráðherranefndin gefur út skýrsluna „Ligestilling i Norden“ sem inniheldur erindi og umræður af ráðstefnunum. „Ligestilling i Norden – 2010:522 er að finna á slóðinni:
 www.norden.org/da/publikationer/publikationer/2010-522.