Jafnrétti kynjanna í skólum og lögum

Það eru 2000 færri konur en karlar í Færeyjum. Konur fluttu ekki til baka eftir kreppuna á tíunda áratug síðustu aldar. Hvers vegna og hvernig er hægt að fá þær heim? Það er spurning sem færeysk stjórnvöld glíma við.
Þetta kom fram á tveggja daga námstefnu sem íslensk stjórnvöld stóðu fyrir í Færeyjum 3.-4. júní og var hún hluti af formennskuáætlun Íslands í jafnréttismálum en Ísland stýrir nú starfi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Fyrri dag námstefnunnar var fjallað um jafnrétti í skólastarfi en áður en því kom bauð Ingi Valur Jóhannsson formaður jafnréttisnefndar Norrænu ráðherranefndarinnar (ÄK-JÄM) gesti velkomna fyrir hönd ráðherra jafnréttismála sem ekki átti heimangengt. Hann þakkaði Færeyingum sérstaklega fyrir hlýhug og stuðning við Íslendinga á erfiðum tímum. Lögmaður Færeyja Kaj Leo Johnnesen flutti ávarp þar sem hann spurði einmitt þeirrar spurningar sem að ofan greinir. Hvað er það í færeysku samfélagi sem veldur því að konur snúa ekki aftur heim? Er það kynjamisrétti og einhæfni færeysks samfélags og ef svo er, hvað þarf þá að gera til að breyta því?

Námstefnan hófst síðan á fyrirlestri Carlitu Peltonen um stöðu jafnréttismála á Norðurlöndunum, en hún hefur unnið um árabil á sviði jafnréttismála fyrir Norrænu ráðherranefndina. Í kjölfarið voru fluttir fyrirlestrar og kynningar á verkefnum sem unnið hefur verið að í skólum á Norðurlöndunum.
Á námstefnunni kynntu fulltrúar frá Danmörku, Svíþjóð og Íslandi fyrirmyndarverkefni um hvernig efla megi jafnrétti í skólastarfi.

Seinni daginn var sjónum beint að jafnréttislögum, aðgerðaáætlunum og þróun þeirra. Jafnréttisráðherra Færeyja flutti ávarp en síðan greindu þær Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Karen Jóhanna L. Knudsen félagsfræðingur frá rannsókn sem verið er að vinna á stöðu kvenna í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Hún byggist á viðtölum við konur. Í erindi Guðbjargar Lindu kom fram að atvinnuþátttaka kvenna er mjög mikil í öllum þessum löndum en að tilhneiging sé til að afneita því að kynjamismunun eigi sér stað. Karen greindi frá því að færeyskar konur legðu mikla áherslu á jafnrétti innan heimilisins sem og launajafnrétti en að þar skorti mikið á. Bráðabirgðaniðurstaða hennar er sú að færeyskar konur séu óánægðar með stöðu sína sem ætti að vera stjórnvöldum vísbending um hvers vegna margar þær konur sem fluttu burt í kreppunni snéru ekki til baka. 

Nánari upplýsingar um fyrirlestra sem fluttir voru á námstefnunni er að finna hér