Jafnréttis- og kynjafræðsla í skólum

Undanfarið hefur verið fjallað um mikilvægi þess að kenna jafnréttis- og kynjafræði á öllum skólastigum og er það í samræmi við gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Þar eru skyldurnar mjög skýrar og í 15. gr. sem fjallar um menntun og skólastarf segir:

  • Samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal á frístundaheimilum og í íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks.
  • Öll kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
  • Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu nemendur hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf, óháð kyni.

Hér á heimsíðunni er fjöldinn allur af fjölbreyttu fræðsluefni fyrir öll skólastig, t.d. þættir, hlaðvarp, verkefni og fleira. Hvetjum kennara til að kynna sér efnið og nýta það við kennslu.

Sem dæmi má nefna þáttaröð sem heitir Hvers vegna ekki?, þættirnir taka á kynjuðum staðalmyndum og mismunun á kómískan hátt. Þættirnir hafa hlotið fjölda viðurkenninga og með þeim fylgja kennsluleiðbeiningar sem geta nýst kennurum eða náms- og starfsráðgjöfum við jafnréttisfræðslu.