Jafnréttisáætlanir leikskóla

Innköllun jafnréttisáætlana frá leikskólum hófst í apríl 2019 og lauk um miðjan október. Innköllunin náði til 244 skóla og skiluðu 174 eða 71% fullgildum jafnréttisáætlunum eða gögnum til Jafnréttisstofu. Þetta eru heldur slakari heimtur en fyrir fjórum árum þegar um 80% skólanna skiluðu umbeðnum gögnum.

Samkvæmt 18.gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þurfa leikskólar þar sem starfa 25 starfmenn eða fleiri að setja sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir. Í áætlununum á að koma fram hvernig launajafnrétti er tryggt, jafn aðgangur að störfum og endurmenntun, hvernig staðið er að samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs og komið í veg fyrir að starfmenn verði fyrir kynbundu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni.

Sem menntastofnanir þurfa skólar, óháð starfsmannafjölda, að uppfylla 22. og 23. gr. laganna gagnvart nemendum sínum. Samkvæmt fyrri lagagreininni ber skólastjórnendum að grípa til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að nemendur verði fyrir kynbundu ofbeldi, kynbundnu eða kynferðislegu áreitni í skólanum. Seinni lagagreinin fjallar um menntun og skólastarf en þar segir m.a. að á öllum skólstigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem kynin eru búin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Einnig skulu kennslu- og námsgögn þannig úr garði gerð að þau mismuni ekki kynjunum, þ.e. viðhaldi ekki kynbundnum staðalmyndum sem ætla kynjunum ólík hlutverk í leik og starfi.

Jafnréttisstofa hefur eftirlit með lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Eftirlitið felst m.a. í því að kalla eftir jafnréttisáætlunum og skýrslum um stöðu jafnréttismála frá fyrirtækjum og stofnunum. Haustið 2018, eða nokkrum mánuðum áður en innköllun jafnréttisáætlana hófst, sendi Jafnréttisstofa leikskólastjórum vefkönnun til að afla upplýsinga um stöðu og framgang jafnréttismála innan skólanna. Um 150 leikskólar (60%) brugðust við könnuninni sem innihélt 15 spurningar um hvernig skólarnir uppfylla ofangreindar lagaskyldur.

Að mati svarenda eru starfsmönnum, óháð kyni, tryggð jöfn réttindi og jöfn tækifæri en þekking á aðferðafræði kynjasamþættingar virðist víða ábótavant. Um 20% svarenda vísuðu í eineltis- eða aðgerðaáætlun skólanna þegar spurt var út í aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni, tveir nefndu jafnréttisáætlun sína og nokkrir töldu að slík áætlun væri ekki til. Um 70% svarenda sögðu að kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni væri rædd á vinnustaðum, t.d. á starfsmannafundum. Starfsmenn tuttugu skóla höfðu fengið fræðslu um efnið en hvergi var vísað í sérstaka forvarnar eða viðbragðsáætlun. Hvað nemendur varðar kom fram að vel væri fylgst með nemendum, þessi mál væru til umræðu á starfsmannafundum auk þess sem vísað var til eineltisáætlana. Tuttugu skólar höfðu fengið fræðslu og fjórir skólar sögðust vera með kynjanámskrá þar sem þessi mál væru á dagskrá. Í nokkrum skólum voru þessi mál ekki á dagskrá þar sem slík hegðun hefði ekki komið upp og eða kæmi ekki upp á leikskólum. Af svörunum að dæma virðist víða á leikskólum vanta forvarnir til að tryggja öryggi starfsmanna og nemenda. Tæplega 70% leikskólanna sem svöruðu könnuninni sinna jafréttisfræðslu, t.d. með umræðu, lestri bóka, vinnustaðaheimsóknum og greiningu á myndefni. Í nokkrum skólum segja svarendur lítinn áhuga vera meðal starfsfólks á jafnréttisfræðslu eða að nemendur séu of ungir fyrir slíka fræðslu. Mikill meirihluti svarenda kallar eftir aukinni fræðslu um kynjajafnréttismál og kennslufræðilega nálgun þannig að hægt sé að innleiða slíka fræðslu í allt skólastarfið.