Jafnréttisáætlanir tryggja réttindi starfsfólks á ýmsum sviðum

Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun.

Jafnréttisáætlanir eru samþykktir skipulagsheilda um vinnu og markmið sem hafa jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla að leiðarljósi. Áætlanirnar eru jafnframt viðurkenning atvinnurekenda á að nauðsynlegt sé að framkvæma sérstakar aðgerðir til að raunverulegt jafnrétti og jafnstaða kvenna og karla náist.

Í jafnréttislögum er sérstaklega fjallað á um fjögur meginviðfangsefni jafnréttisáætlana:

Launajafnrétti: Atvinnurekendur skulu tryggja að konum og körlum skulu greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Nýverið hafa verið gerðar sérstakar breytingar sem skylda stærri fyrirtæki og stofnanir til að sýna fram á innleiðingu markvissra og faglegra aðferða við ákvörðun launa í samræmi við Jafnlaunastaðal ÍST 85:2012

Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun: Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum. Þá skulu konur og karlar njóta sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs: Atvinnurekendur skulu gera ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Það skal gert með því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að tekið sé tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni: Gera skal sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar stofnana verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Nýverið hafa réttindi starfsfólks verið frekar tryggð með sérstakri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Jafnréttisáætlun er fyrst og fremst ætlað að skoða og endurmeta aðstæður á vinnustöðum og ryðja úr vegi hindrunum sem geta verið á vegi jafnréttis milli kynjanna. Því er mikilvægt að skýr framkvæmdaáætlun fylgi jafnréttisáætluninni, þar sem kemur fram hvenær og hvernig á að fylgja aðgerðum eftir.