JAFNRÉTTISMÁL ERU SVEITARSTJÓRNARMÁL

Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál var yfirskrift landsfundar um jafnréttismál sem haldinn var á Akureyri föstudaginn 16. september. Rúmlega sextíu manns frá 17 sveitarfélögum sátu landsfundinn sem boðað var til af Akureyrarbæ í samstarfi við Jafnréttisstofu. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Síðan tók Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra við fundarstjórn.

Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, var fyrst á dagskrá og fjallaði hún um skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum. Ásgerður Kristín Gylfadóttir bæjarfulltrúi á Hornafirði, Sigríður Svavarsdóttir bæjarfulltrúi í Skagafirði, Geirlaug Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi í Borgarbyggð og Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri voru raddir kvenna í sveitarstjórn og veltu fyrir sér hvort kyn skipti máli í sveitarstjórn. Þær voru sammála um mikilvægi fjölbreytileikans, þ.e. að raddir sem flestra þjóðfélagshópa fengju að njóta sín og hafa áhrif á málefni samfélagsins.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir


Ingibjörg Broddadóttir formaður stýrihóps um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess kynnti samstarf þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Markmiðið er að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn mála.


Ingibjörg Broddadóttir


Í framhaldinu kynntu Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra og Áskell Örn Kárason forstöðumaður barnaverndar Akureyrarbæjar sams
tarfsverkefni lögreglunnar og Akureyrarbæjar sem miðar að því að vinna gegn heimilisofbeldi.


Halla Bergþóra Björnsdóttir 

Nýmæli í jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar voru kynnt af Silju Dögg Baldursdóttir bæjarfulltrúa og formanni samfélags- og mannréttindaráðs og Guðmundi Baldvin Guðmundssyni formanni bæjarráðs. Silja Dögg sagði frá þeirri hugmynd að tilnefna þróunarleiðtoga innan hinna ýmsu sviða hjá bæjarfélaginu. Hlutverk þróunarleiðtoga er að  fylgja jafnréttismálum eftir innan síns sviðs. Guðmundur fjallaði hins vegar um kynjaða fjárhagsáætlanagerð. Friðný Sigurðardóttir þjónustustjóri Öldrunarheimila Akureyrar sagði frá verkefninu Hræðast karlar gamalt fólk? sem felst í að fjölga karlmönnum í starfsmannahópi heimilanna. Einnig fór Friðný yfir hvernig Öldrunarheimilin eru að innleiða kynjasamþættingu inn í starfsemi sína.


Silja Dögg Baldursdóttir

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir framhaldsskólakennari og brautryðjandi í kynjafræðikennslu hóf dagskrána eftir hádegi. Hanna Björg fjallaði um jafnrétti í skólastarfi undir yfirskriftinni Kynja- og jafnréttisfræðsla:
Gæluverkefni eða grundvallaratriði? Að loknu erindi Hönnu Bjargar tók við hópastarf þar sem þátttakendur gátu valið á milli eftirtalinna viðfangsefna.


Helstu niðurstöður hópavinnu:

Jafnréttismál á tímum niðurskurðar.

Reglur hjá Reykjavíkurborg um að skoða sparnað útfrá jafnréttisjónarmiði. Mikilvægt að forgangsraða. Fjármagn og fræðsla er það sem þarf.

Jafnrétti í skólastarfi.

Endurmenntun kennara. Skora á Menntamálastofnun að bæta námsefni, þróa gæðastimpla. Sporna gegn klámvæðingu og bæta sálfræðiþjónustu. Fá karlana með.

Fjölskylduvæn sveitarfélög.

Stytting vinnuviku, skapa fjölbreytta atvinnu. Tryggja góða leikskóla og félagslega aðstoð vegna barna. Auka gæðastundir og ljúka vinnudegi barna klukkan 16:00. Umönnun aldraðrar.

Launakannanir og launajafnrétti.

Launakannanir þarf að gera á hverju ári. Skoða forsendur þessara kannana sem eru í gangi. Sveitarfélögin vinni greiningar, þ.e. greini stöðuna hjá sér. Innleiða jafnlaunastaðalinn. Auka samstarf t.d. að byggja upp innra net hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.