Jafnréttisstofa hlaut styrk frá ESB

Jafnréttisstofa hefur hlotið styrk frá ESB til að setja af stað verkefni gegn ofbeldi í nánum samböndum. Verkefnið verður unnið í samstarfi við innanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið, Ríkislögreglustjóra, Lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu, Lögregluna á Norðurlandi eystra, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Meginmarkmið verkefnisins er að uppræta ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi og er lagt upp með að tilkynningum til lögreglu muni fjölga um 20% á þeim rúmu tveimur árum sem verkefnið stendur. 
Megininntak verkefnisins er að miðla reynslu af aðferðum sem eru að virka, mynda tengsl á milli aðila, bjóða upp á fræðslu og standa að vitundarvakningu fyrir alla landsmenn. Hér er því ekki um nýja þjónustu fyrir brotaþola eða gerendur að ræða heldur er leitast við að efla þá vinnu og þau úrræði sem þegar eru til staðar auk þess að auka þekkingu og færni fagaðila í að greina ofbeldi. Verkefnið nær til alls landsins og er landinu skipt upp eftir lögregluumdæmum. Sérstök áhersla verður lögð á viðkvæma hópa en samkvæmt rannsóknum eru þeir einkum konur af erlendum uppruna, konur með fötlun og konur sem eiga von á barni.

Verkefnið hlaut styrk úr sjóði Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og ríkisborgararétt (Rights, Equality and Citizenship Programme 2014-2020). Gert er ráð fyrir að verkefnið taki 30 mánuði í framkvæmd og er styrkurinn  36 miljónir á genginu í dag.