Jafnréttisstofa sækir Egilsstaði heim

Jafnréttisstofa verður á Egilsstöðum þriðjudaginn 21. maí og boðar til tveggja funda um jafnréttismál.

Annars vegar eru um að ræða opinn fund á Hótel Héraði í hádeginu (12.00-13.00) með íbúum á Austurlandi, sveitarstjórnarfólki, forstöðumönnum stofnana og fyrirtækja.

Á fundinum kynnir Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur Jafnréttisstofu hlutverk stofunnar og skyldur sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja samkvæmt:

•             Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008

•             Lögum um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018  og

•             Lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 sem leggja bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Hins vegar er um að ræða fund í Egilsstaðaskóla frá kl. 14.00-15:20 með skólastjórnendum, kennurum og námsráðgjöfum þar sem afrakstur verkefnisins „Break“ verður kynntur.

Meðal afraksturs verkefnisins er nýtt og spennandi kennsluefni fyrir unglingastig grunnskólans og framhaldsskóla, kennsluleiðbeiningar fyrir kennara og námsráðgjafa, útvarpsþættir og vefsíða þar sem nálgast má fróðleik í formi leikins efnis og tölvuleiks sem nýta má í kennslu.