Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs

Í dag afhenti Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs við hátíðlega athöfn í Hannesarholti. Í þetta sinn voru það tveir aðilar sem hlutu viðurkenninguna en báðir aðilar hafa skarað fram úr á sviði jafnréttismála þó á mjög ólíkan hátt. Þetta eru Hafnarfjarðarbær og Druslugangan.

Framsækin og metnaðarfull stefna Hafnarfjarðarbæjar gerir sveitarfélagið að heildstæðum brautryðjenda á sviði jafnréttismála og Druslugangan er mikilvægt grasrótarstarf sem hefur haft afgerandi áhrif á samfélagið og opnað umræðuna um kynferðisofbeldi. 

Við sömu athöfn opnaði Kristín Jóndóttir vefinn kvennalistinn.is. Vefurinn hefur það að markmiði að varðveita á einum stað öll gögn tengd kvennaframboðunum, miðla reynslu og þekkingu um þessi sögulegu framboð og gera sýnileg þau miklu áhrif sem Kvennalistinn hafði á Alþingi og út í samfélaginu. 

Kvennaframboðin voru einstök á heimsvísu og nutu gífurlegrar athygli og virðingar. Framboðin komu með nýjar pólitískar áherslur, breyttu orðræðunni, styrktu sjálfsmynd kvenna og fjölguðu konum á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þegar Kvennaframboð bauð fram í Reykjavík 1982 tvöfaldaðist fjöldi kvenna í borgarstjórn og þegar Kvennalisti bauð fram 1983, þrefaldaðist fjöldi þeirra á Alþingi. Mikið var fjallað um þau í heimspressunni og kvennalistakonum var boðið að halda fyrirlestra víða um heim til að kynna „hina íslensku leið.“


Rökstuðningur valnefndar:
 

Hafnarfjarðarbær



Hafnarfjarðarbær er framsækið sveitarfélag á sviði jafnréttismála og hlaut í sumar, fyrst íslenskra sveitarfélaga, vottun um að það starfræki launakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins.

Hafnarfjarðarbær hefur unnið markvisst að launajafnrétti frá árinu 2013 en þá hóf sveitarfélagið þátttöku í tilraunaverkefni fjármála- og velferðarráðuneytisins um innleiðingu jafnlaunakerfis samkvæmt jafnlaunastaðli.

Markmið Hafnarfjarðarbæjar með þátttöku í verkefninu var að koma á og viðhalda launajafnrétti meðal starfsmanna bæjarins með því að tryggja jafnan rétt kvenna og karla til sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.   

Hafnarfjarðarbær vinnur samkvæmt starfsmatskerfi sveitarfélaga en þar er lagt samræmt mat á ólík störf. Starfsmatið gerir forsendur launaröðunar sýnilegar þannig að mögulegt er að ákvarða sömu laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf, óháð kyni, starfstöð eða stéttarfélagi.

Í dag starfar jafnlaunaráð hjá Hafnarfjarðarbæ og eru fulltrúar þess útnefndir af sviðsstjórum sveitarfélagsins og starfa þeir í umboði æðstu stjórnenda þess. Helstu verkefni ráðsins er að framfylgja aðgerðaáætlun og tryggja virkt eftirlit með launaákvörðunum sem m.a. felst í:

• Rýni yfir launagreiningu og aðgerðaráætlun sem gerð er út frá henni
• Rýni innsendra ábendinga
• Framkvæmd innra eftirlits og úttekta
• Að upplýsa æðstu stjórnendur um verkefnastöðu
• Upplýsingagjöf til alls starfsfólks um jafnlaunakerfi bæjarins

Jafnlaunakerfið auðveldar sýnileika og eftirlit með því hvernig markmiðum sveitarfélagsins um að vinna að launajafnrétti og viðhalda því á opinn og gagnsæjan hátt, er fylgt eftir.
Annað markmið Hafnarfjarðarbæjar, fyrir utan vinnu við að tryggja konum og körlum jöfn laun, er að nýta jafnréttisáætlun sína til að stuðla að sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í stjórnunarstöðum og í ákveðnum starfsgreinum hjá sveitarfélaginu. Þessu er framfylgt með reglulegri úttekt á fjölda stjórnenda eftir kynjum og kynjahlutfall innan ákveðinna starfsgreina og brugðist er við kynjahalla eftir því sem við á.

Hafnarfjarðarbær setti sér Jafnréttis- og mannréttindastefnu í ársbyrjun 2017. Hún var unnin af þverpólitískum starfshópi sem mannauðsstjóri starfaði með en samkvæmt henni á að vinna markvisst gegn allri mismunun. Stefnan nær til ólíkra hlutverka sveitarfélagsins, þ.e. sem stjórnvalds, vinnuveitanda og veitanda þjónustu og til samstarfsaðila. Öllum stofnunum sveitarfélagsins ber að vinna samkvæmt henni og hver stofnun tilnefnir jafnréttisleiðtoga sem er ætlað að vera málsvari kynjasamþættingar í öllu starfi sveitarfélagsins.

Af framangreindu má sjá að Hafnarfjarðarbær rekur mjög framsækna og metnaðarfulla stefnu í jafnréttismálum. Þessi markvissa vinna sveitarfélagsins á sviði jafnréttismála, þar með talin jafnlaunavottunin, gerir Hafnarfjarðarbæ að heildstæðum brautryðjanda á sviði jafnréttismála á sveitarstjórnarstigi. Sú reynsla og þekking sem Hafnarfjarðarbær hefur byggt upp í gengum metnaðarfullt starf ætti að vera öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni og hvatningar. Því teljum við Hafnarfjarðarbæ vel að jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs kominn. 

Druslugangan



Druslugangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis sem hefur það markmið að uppræta fordóma varðandi klæðaburð og ástand þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi, vekja athygli á því að gerendur bera ábyrgð á kynferðisofbeldi og berjast gegn þeirri orðræðu sem gefur til kynna að kynferðislegt ofbeldi geti verið þolendum að kenna.
Druslugangan (e. slutwalk) er alþjóðleg hreyfing sem byrjaði með mótmælum í Toronto í Kanada í apríl 2011 sem viðbragð við ummælum lögregluþjóns sem sagði að „konur skyldu forðast að klæða sig eins og druslur. Þegar fréttir af þessu grasrótarstarfi spurðust út náði Druslugangan alþjóðlegri útbreiðslu.  

Fyrsta druslugangan á Íslandi var farin í Reykjavík 23. júlí 2011. Markmið hennar er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og berjast fyrir réttarbótum að því er varðar kynferðisbrot. Gangan hefur breytt orðræðunni um kynferðislegt ofbeldi, hugarfari fólks, haft áhrif á fjölmiðla og löggjafarvaldið. Druslugangan hefur tekið sér pláss, búið til pláss og haft hátt. 
Í fyrstu göngunni voru þátttakendur um eitt þúsund og hefur þeim fjölgað með hverju ári. Árið 2017 voru þátttakendur um tuttugu þúsund. Áherslur göngunnar hafa verið mismundandi frá ári til árs, eins og sjá má í eftirfarandi lista:

2011 Kynferðisofbeldi gegn konum 
2012 Framsetningu fjölmiðla á fréttum af kynferðisofbeldi
2013 Ofbeldi gegn körlum
2014 Vandi kvenna af erlendum uppruna og þöggun kynferðisofbeldis
2015 Uppreisn kvenna í gengum herferðina #freethenipple og #konurtala
2016 Þöggun kynferðisbrota á landsbyggðinni
2017 Stafrænt kynferðisofbeldi

Á upptalningunni sést að aðstandendur göngunnar hafa vakið athygli á margþættum birtingarmyndum kynferðisofbeldis í samfélaginu. 
Í dag mynda ellefu sjálfboðaliðar skipulagskjarna göngunnar. Mikil áhersla er á að gangan sé aðgengileg öllum og tali til mismunandi hópa. Síðustu ár hefur fræðsluhlutverk verkefnisins aukist og í dag er farið með fræðslu í félagsmiðstöðvar og framhaldsskóla til að kynna gönguna, tala um forvarnir gegn kynferðisofbeldi og útskýra mikilvægi þess að taka afstöðu. Með elju, áhuga og metnaði hafa aðstandendur göngunnar náð að hrífa almenning með sér. Druslugangan er mikilvægt grasrótarstarf sem hefur haft afgerandi áhrif á samfélagið og aukið og breytt umræðunni um jafnrétti.