Jöfn meðferð utan vinnumarkaðar

Um miðjan júní samþykkti Alþingi breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar þannig að þau ná nú til sömu mismununarþátta og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Lögin taka því til jafnrar meðferðar óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Með jafnri meðferð utan vinnumarkaðar er í lögunum meðal annars átt við félagslega vernd, svo sem í tengslum við almannatryggingar, menntun og aðgang almennings að vörum og þjónustu.

Markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Breytingin felur í sér aukna réttarvernd þeirra sem telja á sér brotið á grundvelli ofangreindra mismununarþátta þar sem einstaklingar geta nú borið mál sín undir kærunefnd jafnréttismála. Eftir breytingarnar samræmast lögin betur lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Lögin öðluðust gildi 15. júní sl. en ákvæði um mismunandi meðferð á grundvelli aldurs öðlast ekki gildi fyrr en 1. júlí 2024.