Kannanir um ofbeldi gegn konum í nánum samböndum

Góð mæting var á kynningarfund
um niðurstöður kannana hjá félagsþjónustu/barnavernd og grunnskólum um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum sem fór fram í Iðnó í gær.Aðgerðaáætlun stjórnvalda til að sporna við ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi tekur til áranna 2006–2011. Einn liður í henni er framkvæmd viðamikillar rannsóknar á ofbeldi karla gegn konum og ber félags- og tryggingamálaráðuneytið ábyrgð á þessum þætti.

Rannsóknin skiptist í fimm hluta og lauk fyrsta hluta hennar síðastliðið vor. Í henni var rætt við konur á aldrinum 18–80 ára og leiddu niðurstöður meðal annars í ljós að um 22% kvenna hafa einhvern tíma á ævinni verið beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að um fjórðungur barna þar sem ofbeldi á sér stað í nánum samböndum hafi vitneskju um eða hafi orðið vitni að ofbeldi gegn móður.

Þeir hlutar rannsóknarinnar sem kynntir voru í gær lúta annars vegar að félagsþjónustu og barnavernd og hins vegar að grunnskólunum.

Félagsþjónusta og barnavernd

Rætt var við starfsfólk félagsþjónustu og barnaverndar í níu sveitarfélögum á landinu. Markmiðið var að fá yfirlit yfir á hvern hátt þessar stofnanir bregðast við þegar kona leitar aðstoðar vegna heimilisofbeldis og fá fram hugmyndir til úrbóta á þjónustunni.

Helstu niðurstöður

•    Börn virðast oftast vera forsenda fyrir beiðni um aðstoð frá félagsþjónustu og ekki er algengt að barnlausar konur leiti aðstoðar. Tilvist barna á heimili er einnig ástæða tilkynninga í þessum málaflokki.
Skráning mála er varða heimilisofbeldi er ábótavant og ekki hægt að kalla fram upplýsingar um fjölda kvenna sem leita aðstoðar vegna þess.

•    Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um ofbeldi gegn viðkvæmum hópum kvenna, þ.e. gömlum konum, konur af erlendum uppruna og fötluðum konum.

•    Kvennaathvarfið er talið mikilvægasti samstarfsaðli í málum sem tengjast heimilisofbeldi og mikið traust borið til starfsmanna þess.

•    Talið er að andlegt ofbeldi í garð kvenna hafi aukist á síðustu árum en erfitt getur verið að nálgast þau mál og veita konunum nauðsynlega aðstoð.

•    Sérstakt tillit er tekið til stöðu barna á heimili þegar mál sem tengjast heimilisofbeldi koma upp og veita þeim stuðning.

•    Margir viðmælenda telja að þegar leitað er aðstoðar vegna heimilisofbeldis tengist það í flestum tilvikum áfengisneyslu.

•    Þörf er á aukinni þekkingu og fræðslu um heimilisofbeldi bæði til starfsmanna sem sinna ráðgjöf hjá félagsþjónustu og barnavernd en einnig hjá starfsmönnum heimaþjónustu og heimahjúkrunar auk samstarfsaðila eins og starfsmanna leikskóla og lögreglu.

Rannsókn á ofbeldi gegn konum - Viðbrögð félagsþjónustu og barnaverndar (PDF)


Grunnskólar

Rætt var við skólastjóra í tíu grunnskólum víðs vegar á landinu. Markmiðið var að fá mynd af því hvernig skólinn bregst við þegar barn þarfnast hjálpar vegna ofbeldis gegn móður á heimili þess og fá fram hugmyndir til úrbóta á þjónustunni.

Helstu niðurstöður

•     Vitneskja skólastjóra um ofbeldi gegn mæðrum nemenda er lítil. 

•     Skólastjórar tilkynna til Barnaverndar/félagsþjónustu ef um ofbeldi er að ræða á heimili.

•     Hlutverk skólans er óljóst. Fræðslu – og uppeldishlutverk togast á. Sitt sýnist hverjum.

•    Hlutverk einstakra starfsmanna er óljóst. Mjög misjafnt hvort og hvert nemendur leita með persónuleg         vandamál.

•    Auka þarf umræðu um ofbeldi gegn konum innan skólasamfélagsins. Nánast engin umræða um þennan málaflokk í skólunum.

•    Auka þarf fræðslu um ofbeldi gegn konum í skólum. Fyrst og fremst að fræðslan miðist að því að kennarar átti sig á einkennum þess að nemandi búi við ofbeldi og að fræðslan breyti verklagi í skólanum.

•    Vantar sérþekkingu á sviði persónulegrar ráðgjafar inn í skólana. Tryggja þarf þjónustu við nemendur þegar kemur að persónulegri ráðgjöf.

Rannsókn á ofbeldi gegn konum - Viðbrögð skólastjóra 10 grunnskóla (PDF)