Konum fjölgar í sendiherrastétt á Norðurlöndum

Kynjahlutföll hafa batnað í æðstu embættum utanríkisþjónustu Norðurlanda. Sífellt fleiri konur verða sendiherrar og ryðja þar með braut kynsystra sinna í þessu hefðbundna karlavígi. Þetta kemur fram í viðamiklu norrænu rannsóknaverkefni um kyn og völd í stjórnmálum og atvinnulífi. Verið er að kynna lokaskýrslu verkefnisins. Konum sem sendiherrum hefur fjölgað um þrjátíu af hundraði á undanförnum 15 árum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, en í Danmörku og á Íslandi eru einungis konur í15 prósent sendiherraebætta. Fjölgunin skýrist af upplýstri áherslu á jafnrétti og ráðningar kvenna í hefðbundin karlastörf.

Rannsóknaverkefnið Kynferði og völd á Norðurlöndum er fyrsta sinnar tegundar, en í því voru kortlagðar æðstu stöður í stjórnmálum og atvinnulífi í norrænu ríkjunum og á sjálfsstjórnarsvæðunum Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum. Tuttugu fræðimenn rannsökuðu þróunina undanfarin 15 ár og mátu stjórnvaldsaðgerðir í jafnréttismálum.

Það var Norræna rannsóknarstofnunin í kvenna- og kynjafræðum, NIKK, sem stjórnaði verkefninu fyrir Norrænu ráðherranefndina.
Ef miðað er við að kynjajafnvægi sé náð með 40-60 prósenta þátttöku hvors kyns má segja að það hafi tekist á þjóðþingum Finnlands, Íslands og Svíþjóðar. Í Danmörku og Noregi er hlutur kenna undir 40 prósentum.

„Þátttaka kvenna á þingi hefur aukist alls staðar frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, nema í Noregi þar sem hún er óbreytt", segir Kirsti Niskanen rannsóknastjóri hjá NIKK.

Jafnframt er ljóst að konur og karlar starfa á ólíkum sviðum innan stjórnmálanna. Á norska Stórþinginu hefur kynjabilið aukist á síðustu árum, á meðan dregið hefur saman með kynjunum annars staðar á Norðurlöndum.
„Norska þingið hefur sofnað á verðinum. Það virðist sem þau fáu skref sem tekin hafa verið í átt að betra kynjajanfvægi dragi athyglina frá því að kynjaskipting starfa í nefndum og ráðum hefur í raun orðið meiri." Þetta segir Mari Teigen, einn af norsku fræðimönnunum sem tóku þátt í verkefninu.

Jafnvægi milli kynja hefur fyrst og fremst aukist í áberandi stöðum. Í sveitarstjórnum er ekki lögð jafn mikil áhersla á jafnréttismál og því er hlutur kvenna þar rýrari en í landsmálapólitíkinni.

Í atvinnulífi hefur ekki orðið vart við sams konar breytingar og í stjórnmálunum undanfarin 15 ár. Fræðimennirnir báru saman valdakerfi í fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöll og ríkisstofnunum og komust að því að atvinnulífið er enn sem fyrr vígi karla með örfáum undantekningum. Hlutur kvenna í stjórnum einkafyrirtækja á Norðurlöndum er á bilinu 7- 36 prósent. Kynjahlutfallið er jafnara hjá ríkisstofnunum vegna þess að þar er almennt farið að jafnréttislögum við ráðningar.
Undantekningarnar eru Noregur og Ísland sem sett hafa kvóta um stjórnarmenn í fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni.

Í einkafyrirtækjum eru karlar þó enn nær einráðir, meira að segja í þeim löndum þar sem konum hefur fjölgað til muna í stjórnum fyrirtækja. Konur gegna helst æðstu stöðum hjá fjármála- og þjónustufyrirtækjum og í heilbrigðisþjónustu.

Rannsóknaskýrslan í heild er á vefsíðunni:www.norden.org
Í fyrri hluta skýrslunnar eru kynntar niðurstöður frá norrænu ríkjunum fimm og sjálfstjórnarsvæðunum Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.
Í seinni hlutanum eru greiningar virtra norrænna vísindamanna í jafnréttismálum. Kirsti Niskanen rannsóknastjóri svarar fyrirspurnum um verkefnið og gefur upplýsingar um vísindamenn sem unnu hana á Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum.