"Kvenmannslaus í kulda og trekki kúrir saga vor"

Nú í sumar var unnin á Jafnréttisstofu rannsókn á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu fyrir miðstig grunnskóla á Íslandi. Á miðstigi eru börn í 5-7 bekk. Námsbækurnar sem nú eru í boði hjá Námsgagnastofnun í sögu fyrir þetta aldursstig eru 11 talsins og voru þær allar rannsakaðar. Í ljós kom að hlutdeild nafngreindra kvenna í námsefninu er afar takmörkuð eða á bilinu 1-20%. Það vakti sérstaka athygli að nýjar námsbækur í Íslandssögu, Sögueyjan 1. sem kom út árið 2009 og Sögueyjan 2. sem kom út árið 2010 komu verst út þegar jafnrétti milli kynja var skoðað. Það er alvarlegt ekki síst í ljósi þess að nú er þriðja Sögueyjubókin væntanleg og munu Sögueyjubækurnar því spanna alla Íslandssöguna, tímabilið frá landnámi til nútímans.

Í þeim tveimur Sögueyjubókum sem voru rannsakaðar eru aðeins nafngreindar fimm konur en 106 karlar og var þá búið að finna saumnálarnar í heystakknum. Bækurnar spanna tímabilið 870-1900. Engin kona finnst í fyrirsögn, kaflaheiti eða atriðisorðaskrá bókanna tveggja. Í atriðisorðaskrám Sögueyjunnar 1. og 2. eru hinsvegar 78 karlar og eru þó ekki allir nafngreindir karlar bókanna taldir upp en þeir eru 106 eins og áður var sagt. Aðeins einnar konu er getið í meginmáli, Ólafar ríku þar sem vitnað er í hana sem höfund orðtaksins „Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði.“ Ein kona er nafngreind í myndatexta ásamt eiginmanni, Kristín sýslumannsfrú í Ögri. Þá eru eftir þrjár, nafn Guðrúnar Ósvífursdóttur er í myndatexta sem höfundar orðtaksins „þeim var ég verst er ég unni mest“, hinar tvær konurnar eru nafngreindar sem höfundar ljóða í bókinni. Í Sögueyjunni eru allar aðrar konur Íslandssögunnar ónafngreindar og fjarverandi, í þeim hópi eru til dæmis Hallveig Fróðadóttir, Auður djúpúðga og Guðríður Þorbjarnardóttir. Þegar farið er yfir heildartíðni nafngreiningar í Sögueyjubókunum kemur í ljós að nafngreining kvenna er aðeins 1% af heildarnafngreiningum og er það slakasta útkoma námsbókar í rannsókninni.

Það fylgir því vald og ábyrgð að velja þekkingu til kennslu fyrir íslenska æsku ekki síður í sögu en öðrum námsgreinum. Gera verður þá kröfu til allra þeirra sem koma að gerð námsefnis, höfunda, ritstjóra, yfirlesara, ráðgjafa og Námsgagnastofnunar að námsbækur séu í samræmi við gildandi lög, viðmið og æskileg gildi samfélagsins eins og þau eru til dæmis skilgreind í aðalnámskrá. Í nýrri aðalnámsskrá grunnskóla frá 2011 er jafnrétti eitt af sex grunngildum menntunar sem tekið skal tillit til í öllu námi og námsefni. Eðlilegt er að ætlast til þess að þeir sem vinna námsefni leggi sig fram um að mæta gildandi lögum samfélagsins eins og lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr.10/2008. Ef til vill má ætla að vegna ójafnrar stöðu karla og kvenna gegnum aldir sé snúið að skrifa söguna án þess að þar halli á konur hvað varðar nafngreiningu og umfjöllum en það er alveg ljóst að það er ástæðulaust að hunsa helming mannkyns, með þeim hætti sem gert er í Sögueyjunni. Þar eiga sannarlega mörg nöfn kvenna vel heima og eru hluti af þeirri sögu sem er dulin, ekki sögð, látin fara hjá garði. Þannig er til dæmis sagt frá Grundarbardaga án þess að nafngreina Helgu á Grund.

Þeir sem vinna námsefni fyrir börnin okkar í dag ættu að hafa að leiðarljósi að sagan á að vera saga manna, samfélags karla og kvenna og skrifuð fyrir stúlkur og drengi skólastofunnar á 21. öldinni. Þeim viljum við birta sögu sem virðir og kallar til bæði konur og karla, sögu sem bæði drengir og stúlkur geta talið sína, speglað sig í og lært af með því að kynnast bæði forfeðrum og formæðrum þjóðarinnar. Hér þarf að bæta um betur.

Skýrslan hefur verið kynnt fyrir fulltrúum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Námsgagnastofnunar.

Skýrsluna má nálgast hér