Kynbundinn launamunur ekki á undanhaldi

Niðurstöður úr launakönnun SFR voru kynntar þann 7. september sl.  Könnunin sem er unnin af Capacent í samvinnu við VR og Stéttarfélag Reykjavíkurborgar sýnir að innan VR og SFR hafa orðið litlar breytingar á kynbundnum launamun frá síðustu könnun. Launamunur, sem eingöngu er hægt að rekja til kynferðis þegar búið er að taka tillit til annarra áhrifaþátta, mælist nú 9,4% af heildarlaunum hjá VR og hefur lækkað lítillega frá fyrra ári. Hjá SFR mælist kynbundinn launamunur 12,1%  og hefur lækkað úr 13% í fyrra, en hjá Stéttarfélagi Reykjavíkurborgar hefur kynbundinn launamunur af heildarlaunum hins vegar aukist úr 9% í fyrra í 11,8% nú.Hjá Stéttarfélagi Reykjavíkurborgar eru konur með 16% lægri heildarlaun en karlar fyrir fullt starf. Og þegar heildarlaun í ólíkum menntunarhópum eru skoðuð hafa konur 11-30% lægri laun en karlar. Kynbundinn launamunur hefur aukist hjá Stéttarfélagi Reykjavíkurborgar og mælist nú 11,8%  en var 9% í könnuninni í fyrra. Við útreikninga á kynbundnum launamun liggja til grundvallar laun karla og kvenna í fullu starfi. Tekið er tillit til áhrifa fjölmargra þátta í útreikningunum þannig að sá munur sem fram kemur í launum karla og kvenna skýrist ekki af mismunandi vinnutíma, ólíkum starfsgreinum, atvinnugreinum, eða vegna mismunar á aldri, starfsaldri, eða menntun. Samkvæmt könnuninni eru konur enn að meta sig til lægri launa en karlar og er mismunurinn á því mati um milljón krónur á ársgrundvelli körlum í vil.