Kynjafræði fyrir kennara

Forsenda markvissrar jafnréttisfræðslu og jafnréttisstarfs í skólum eru vel menntaðir kennarar á sviði jafnréttis og kynjafræði. Á síðasta skólaári bauð Jafnréttisstofa upp á fyrirlestra og námskeið í skólum með það að markmiði að efla kynjafræðilegan grunn kennara og skapa umræðu í skólunum um jafnréttismál. Áfram verður haldið næsta skólaár og í ágúst mun Jafnréttisstofa standa fyrir dagsnámskeiði í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri og í október verður hálfsdagsnámskeið í Garðabæ.Hvers vegna kynjafræði fyrir kennara?
Í lokaskýrslu þróunarverkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum er vakin athygli á mikilvægi kynjafræði í kennaramenntun. „Í 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt. Í 23. grein sömu laga segir einnig að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi. Ef uppfylla á þessar lagagreinar verða skólayfirvöld og skólastjórnendur að afla sér þekkingar á þessu sviði. Einn liður í því er að kynjafræði verði skyldunámsgrein í kennaramenntun og gangskör verði gerð að endurmenntun kennara á þessu sviði. Að jafnaði hafa ekki verið sérstök námskeið í kynjafræði í kennaranáminu, þótt sums staðar hafi verið hægt að sækja valnámskeið á þessu sviði. Líklegt er að þetta valdi því að hægt gengur að samþætta kynjasjónarmið við stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi.“

Kynjafræði, jafnréttisfræðsla - Hvað er í boði?
Jafnréttisstofa hefur boðið upp á stutt innlegg og fyrirlestra í skólum um jafnréttismál auk lengri og styttri námskeiða sem jafnvel er þá fylgt eftir með ráðgjöf og stuðningi við viðkomandi skóla t.d. við gerð jafnréttisáætlana. Leitast er við að mæta óskum og þörfum hvers skóla fyrir sig.

Við upphaf skólaárs 2010-2011 stendur Jafnréttisstofa fyrir námskeiðum í Reykjavík, Akureyri, Kópavogi og Garðabæ í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög.

Reykjavík miðvikudaginn 11. ágúst 2010
Miðvikudaginn 11. ágúst verður boðið upp á dagsnámskeið fyrir kennara í Reykjavík þar sem farið verður yfir ákvæði laga og námskráa um jafnrétti kynjanna og fjallað um staðalmyndir kynjanna. Kennarar í Vogaskóla kynna jafnréttisfræðsluverkefni sem þar hafa verið unnin og jafnréttisráðgjafi mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir frá sínu starfi. Eftir hádegi skipta kennarar sér niður á vinnustofur þar sem unnið verður með jafnréttisáætlanir skóla, námsefni m.t.t. jafnréttis kynjanna og samstarf heimilis og skóla.

Akureyri miðvikudagur 18. ágúst 2010
Námskeiðið á Akureyri, sem haldið verður miðvikudaginn 18. ágúst, er sambærilegt við það sem boðið er upp á í Reykjavík. En til viðbótar stendur hverjum skóla til boða tveir eftirfylgnifundir til stuðnings og ráðgjafar. Auk þess verða kynningar- og fræðslufundir fyrir skólastjórnendur og fulltrúa bæjarins á sviði mennta- og jafnréttismála.

Kópavogur fimmtudagur 19. ágúst 2010
Námskeiðið í Kópavogi fimmtudaginn 19. ágúst er í grunninn það sama og í Reykjavík og á Akureyri. Á dagsnámskeiðinu bætist þó við kynning á jafnréttisstarfi í Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Skólunum standa til boða eftirfylgnifundir þar sem m.a. verður unnið með jafnréttisáætlanir og fræðslu- og kynningarfundur verður haldinn með skólastjórnendum í Kópavogi og fulltrúum bæjarins á sviði mennta- og jafnréttismála. Á fundinum verður farið yfir ákvæði laga og námskráa um jafnrétti kynjanna og lokaskýrslu þróunarverkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum. Mikilvægt er að skólayfirvöld og skólastjórnendur séu vel upplýstir varðandi tilgang jafnréttisstarfs í skólum. Það eru þeir sem bera ábyrgð á því að farið sé að lögum og jafnréttisstarf og jafnréttisfræðsla sé innleidd í allt skólastarf.

Garðabær mánudagur 18. október 2010
Mánudaginn 18. október á starfsdegi kennara í Garðabæ mun Jafnréttisstofa í samvinnu við sveitarfélagið standa fyrir hálfsdags námskeiði. Farið verður yfir ákvæði laga og námskráa um jafnrétti kynjanna og fjallað um staðalmyndir kynjanna og jafnréttisáætlanir. Unnur Gunnarsdóttir og Sigurbjörg Hallgrímsdóttir, kennarar í Vogaskóla kynna jafnréttisfræðsluverkefni fyrir fyrsta og fjórða bekk og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari í Borgarholtsskóla segir frá frumkvöðlastarfi sínu hvað varðar jafnrétti og kynjafræði í framhaldsskóla.

Skólarnir gegna lykilhlutverki
Formlegt jafnrétti næst með lögum en raunverulegt jafnrétti krefst viðhorfsbreytinga og þar gegna skólarnir mikilvægu hlutverki. Með markvissri fræðslu og umræðu frá upphafi skólagöngu færum við ungu fólki tækifæri til að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína á eigin forsendum, óháð heftandi staðalmyndum kynjanna og hefðbundnu starfsvali. Það mun nýtast þessum einstaklingum auk þess sem hæfileikar þeirra munu gagnast samfélaginu í heild.

Nánari upplýsingar veitir Arnfríður Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri á Jafnréttisstofu
arnfridur[at]jafnretti.is sími 460-6200