Kynjakrónur

Kynjakrónur: Handbók um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð er komin út. Bókin er samvinnuverkefni Jafnréttisstofu og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í henni eru kynntar aðferðir sem stuðlað geta að jafnrétti og betri nýtingu opinberra fjármuna. Bókin er ætluð ráðuneytum, sveitarfélögum, stofnunum, félagasamtökum og fyrirtækjum.
Í handbókinni eru aðferðir kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar kynntar og farið yfir helstu þætti sem nauðsynlegt er að hafa í huga við verkefni á þessu sviði.

Aðferðirnar eru studdar með íslenskum dæmum sem unnin hafa verið á undanförnum árum. Meðal verkefna sem kynnt eru í handbókinni er greining á biðlistum í hjartaþræðingar, greining á atvinnuleysisbótum og kynjaáhrif fjármagnstekjuskattskerfisins. Greiningarnar leiddu m.a. í ljós að biðtími kvenna eftir kransæðaþræðingu var að meðaltali lengri en karla á árunum 2009 og 2010. Þá kom í ljós að mismunandi staða kynjanna á vinnumarkaði endurspeglast í greiðslu atvinnuleysisbóta. Enn fremur sýndi greining að samsköttun fjármagnstekna hjá hjónum og sambúðarfólki leiðir til þess að sá aðili sem greiðir skattinn er ekki endilega sá eða sú sem stofnar til hans né fær hann endurgreiddan.

Nýja handbókin um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð er ætluð þeim sem vilja fá innsýn í hvað kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð snýst um og hvernig hægt er að bera sig að við fyrstu skrefin á einfaldan og handhægan hátt. Hún byggir á reynslu innleiðingar hjá ríkinu sem hófst árið 2009. Á árunum 2010-2011 voru unnin 17 tilraunaverkefni á vegum ráðuneyta og stofnana og sem stendur er unnið að 10 þriggja ára verkefnum hjá ráðuneytunum. Meðal þeirra verkefna eru greining á kynjaáhrifum virðisaukaskattkerfisins, búnaðarsamningar, samkeppnis¬sjóðir vegna háskóla og rannsókna og loftslagsmál og kynjaáhrif þeirra. Fyrstu áfangaskýrslur verkefnanna eru aðgengilegar á vef fjármálaráðuneytisins. Markmiðið með verkefnunum er að úr verði heildstæðar greiningar í málaflokkum sem hafa umtalsvert vægi og áhrif á stöðu kynjanna ásamt endurmótun stefnumiða og skiptingu fjármagns þar sem það á við.

Innleiðing kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar er í samræmi við þriggja ára áætlun um innleiðingu sem samþykkt var af ríkisstjórninni í apríl árið 2011. Í áætluninni er kveðið á um fjölmargar leiðir til að festa kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð í sessi á næstu misserum. Íslenska innleiðingarferlið hefur vakið athygli erlendis og hafa gestir, m.a. frá Bosníu og Hersegóvínu, Suður-Kóreu og Svíþjóð komið hingað til lands og kynnt sér hvernig staðið hefur verið að málum. Sífellt fleiri sjá sér hag í að taka upp kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð og vert er að minna á að Reykjavíkurborg hefur nú bæst í þann hóp en þar hafa verið unnin tilraunaverkefni á síðustu mánuðum.

Handbókina má nálgast hér á rafrænu formi