Launamunur kynjanna minnstur hjá Akureyrarbæ

Launamunur kynjanna mælist nú aðeins þrjú prósent hjá Akureyrarbæ, ef marka má niðurstöður nýrrar launakönnunar sem Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði. Þetta kom fram á málþinginu Kynbundinn launamunur – aðferðir til úrbóta, sem Jafnréttisstofa hélt á Hótel KEA í gær. Yfir 70 manns mættu á fundinn og spunnust líflegar umræður að erindunum loknum. Á málþinginu kynnti Hjálmar G. Sigmarsson, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, niðurstöður rannsóknar á kynbundnum launamun sem Jafnréttisstofa vann upp úr gögnum Hagstofu Íslands um atvinnutekjur þjóðarinnar. Þar kom meðal annars fram að konur hefðu á landsvísu nærri 81% af atvinnutekjum karla og hefur hlutfallið hækkað úr tæpum 74% frá árinu 1991. Mestur var munurinn á atvinnutekjum kynjanna í Vestmannaeyjum, en minnstur í póstnúmerum 105 og 101 í Reykjavík.

Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar, hélt erindi um breytingar á launakerfi bæjarins. Akureyrarbær hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að jafna laun kynjanna, meðal annars með því að taka þátt í starfsmati, setja reglur um þak á yfirvinnu og hætta að greiða fastar greiðslur fyrir akstur og óunna yfirvinnu.

Þetta hefur skilað þeim árangri að konur sem starfa hjá Akureyrarbæ eru nú með 3% lægri heildarlaun en karlar, samkvæmt launakönnun sem RHA gerði fyrir bæjarfélagið, en þær voru með 8% lægri heildarlaun en karlar í sambærilegri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi árið 1998. Konurnar eru nú með 1,4% hærri dagvinnulaun en karlar, en voru með 6% lægri dagvinnulaun en karlar fyrir níu árum. Sé miðað við heildarlaun hefur engin rannsókn hjá sveitarfélagi sýnt minni launamun kynjanna.

Síðasta erindi málþingsins var í höndum Ingibjargar Óðinsdóttur, forstöðumanns mannauðsstjórnunar hjá Skýrr. Ingibjörg sagði frá því að Skýrr gerði árlegar launakannanir innanhúss og að launarammi fyrir hvert starf hjá fyrirtækinu væri ákveðinn óháð kyni. Þá sagði hún að launaleynd hefði verið afnumin hjá Skýrr, þannig að starfsmenn gætu rætt opinskátt um laun sín.

Konum hefur fjölgað í stjórnunarstöðum hjá Skýrr og sagði Ingibjörg það ekki vera sína reynslu eða annarra hjá fyrirtækinu að konur vildu síður taka að sér aukna ábyrgð en karlar. Hins vegar þyrftu konur oft aðeins meiri hvatningu. Loks sagði Ingibjörg að það skipti öllu máli að æðstu stjórnendur væru meðvitaðir um nauðsyn þess að vinna að jöfnum launum og jafnrétti innan fyrirtækja.

Að erindunum loknum stjórnaði Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, umræðum. Fundargestir lýstu ánægju sinni með árangurinn hjá Akureyrarbæ og rætt var um launaleynd og neikvæðar afleiðingar hennar. Þá voru önnur sveitarfélög og fyrirtæki á einkamarkaði hvött til þess að fara að frumkvæði Akureyrarbæjar og vinna að því að minnka launamun kynjanna.