Lög um jafnlaunavottun taka gildi 1. janúar 2018

Þann 1. janúar 2018 taka gildi lög nr. 56/2017 um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Breytingin á við um 19. grein laganna sem fjallar um launajafnrétti. 

Megin breytingin er sú að nú er fyrirtækjum og stofnunum skylt að sýna fram á að þau greiði jöfn laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Í lögunum segir að „fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skal öðlast vottun, sbr. 10. tölul. 2. gr., að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85, sbr. 1. gr. c staðalsins.“

Samkvæmt 4. gr. laga nr.10/2008 hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd laganna og kemur stofnunin því til með að hafa eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir sem falla undir lögin öðlist jafnlaunavottun. Stofnunin kemur einnig til með að gefa út jafnlaunamerki þegar henni hefur borist vottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar frá aðila sem hefur hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85

Lögin gera ráð fyrir aðlögunartíma sem er mismunandi eftir fjölda starfsmanna:
250+ starfsmenn 31. desember 2018.
150-249 starfsmenn 31. desember 2019.
90-149 starfsmenn 31. desember 2020.
25-89 starfsmenn 31. desember 2021. 

Eftir áramótin mun Jafnréttisstofa birta á heimasíðu sinni skrá yfir þau fyrirtæki og stofnanir sem hafa öðlast jafnlaunavottun auk nánari upplýsinga um innleiðingu jafnlaunastaðals og eftirlit stofnunarinnar með framkvæmd laganna. 

Upplýsingar um jafnlaunastaðalinn og vottunarferlið auk hagnýtra upplýsinga má finna á heimasíðu velferðarráðuneytisins