Málþing um ofbeldið á landsbyggðunum

Um sjötíu manns sóttu málþing um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi og afleiðingar þess á landsbyggðunum. Málþingið var haldið á Akureyri þann 4. desember sl. en var einnig sent út netinu. Málþingið hófst á ávarpi Eyglóar Harðdóttur félags- og húsnæðismálaráðherra sem hún flutti í gegnum skype. Ráðherra kom víða við í ræðu sinni og gerði ítarlega grein fyrir þeim aðgerðum sem unnið er að af hálfu ráðuneytisins til að sporna gegn ofbeldi með víðtæku samráði allra aðila sem lagt geta lið þessu mikilvæga verkefni. Hún sagði einnig frá frá erlendum rannsóknum sem leitt hefðu í ljós góðan árangur af meðferð sem veitt er í gegnum netið, meðal annars vegna þess að brottfall úr þjónustunni virtist minna en annars, sérstaklega hjá ungum þolendum. Ráðherra sagði þetta áhugavert að skoða, ekki síst ef það gæti líka bætt aðgengi fólks að þjónustu um allt land, óháð búsetu. Ávarpið í heild sinni

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings hélt erindi þar sem hann spurði fyrst hvað við vitum um ofbeldi á Íslandi. Það er ljóst að við þurfum að vita miklu meira. Hann fór yfir það starf sem sveitarfélögin sinna, t.d. að reka leik- og grunnskóla, sinna unglingastarfi og þau lög sem sveitarfélögin vinna samkvæmt en það eru t.d. lög um félagsþjónustu, barnaverndarlög og sveitastjórnarlög þar sem verkefni sveitarfélaganna eru talin upp. Þar eru ofbeldismál ekki nefnd. Sveitarfélaginu Norðurþingi berast nánast aldrei tilkynningar um að börn búi við óviðunandi aðstæður en borgurum þessa lands ber skylda til að tilkynna um slíkt. Það er ljóst að ofbeldismál eru ekki að skila sér í tilkynningum eða kærum. Sveitarfélögin á svæðinu hafa rætt sín á milli um samstarf til að kveða niður heimilisofbeldi en viðræður eru á byrjunarstigi. Það er ljóst að kostnaður við að gera ekki neitt er mikill, einhvers staðar á bilinu 500-30.000 millj. kr. ef stuðst er við erlendar viðmiðanir. Kristján vakti athygli á því að víða er bakvakt, t.d. hvað varðar hafnir o.fl. en engin þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum. Forvarnir eru dýrar en þær spara þegar til lengri tíma er litið og skipta miklu máli.

Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra kynnti þær skilgreiningar á ofbeldi sem lögreglan styðst við og ræddi nýjar verklagsreglur sem ríkislögreglustjóri hefur gefið út. Lögreglan var ekki að nota þau úrræði sem til voru en það hefur nú breyst. Nú er verið að nýta bæði nálgunarbann og brottvísun af heimili. Búið er að koma á samvinnu við félagsþjónustu og barnavernd á Akureyri, Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð en Þingeyjarsýslur standa eftir. Enn þarf að bera ákvörðun um nálgunarbann og brottvísun undir dómara. Halla kynnti nýjar tölu frá lögreglunni. Flest brot eiga sér stað frá kl. 18.00-24.00 um helgar. 

Karen J. Sigurðardóttir er nýráðinn sálfræðingur við Sjúkrahúsið á Akureyri en henni er ætlað að sinna þjónustu við brotaþola ofbeldis. Karen rakti þær leiðir sem eru til staðar en þær eru í gegnum göngudeild geðdeildar, bráðaþjónustu eða tilvísanir frá læknum. Enn er það svo að heimilisofbeldi er ekki skráð sérstaklega á sjúkrahúsinu. Samkvæmt því virðist vera afar lítið um slík mál. Vitað er að málin sem skila sér eru allt of fá og úr því þarf að bæta. 

Ingibjörg Elíasdóttir lögfræðingur Jafnréttisstofu ræddi um ofbeldi í nánum samböndum sem heilbrigðis og lýðheilsumál, eins Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) gerir. Í október var boðað til landssamráðsfundar á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þriggja ráðherra frá því í fyrra. Ráðherrarnir  ætla að vinna saman að því að vinna gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Ingibjörg benti á að heilbrigðisráðherra væri ekki aðili að þessari samstarfsyfirlýsingu. Hún hvatti til þess að heilbrigðisráðherra kæmi inn í samstarfið til jafns við hina ráðherrana þrjá. Hún kynnti starf samstarfsteymis gegn ofbeldi í nánum samböndum en það hefur í samstarfi við Jafnréttisstofu staðið fyrir námskeiðum um allt land til að kynna Suðurnesjaleiðina. Hún benti á að þar vantaði heilbrigðisþjónustuna inn í samstarfið. Ingibjörg sagði að samkvæmt skýrslu WHO frá árinu 2014 hefðu 35% kvenna í heiminum orðið fyrir einhvers konar ofbeldi. 38% þeirra kvenna sem eru myrtar eru drepnar af aðila sem þær þekkja. Víða hefur verið reynt að leggja mat á kostnað við ofbeldi í nánum Það er ljóst að kostnaðurinn er gríðarlegur. Aðgengi að þjónustu er mjög mismunandi eftir landshlutum og ljóst að sum úrræði ná alls ekki til alls landsins. Ingibjörg spurði hvað orðið hefði um endurskoðun á aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar gegn ofbeldi en hún rann út árið 2014.

Kristján Már Magnússon sálfræðingur kynnti úrræðið Karlar til ábyrgðar sem innan skamms munu breyta um nafn og verða þjónustan: Heimilisfriður. Hann sagði að ef allt væri með felldu ættu að vera um 110-200 ofbeldismál í gangi  á öllu Norðurlandi. Það er fjarri því að svo sé. Rannsóknir hafa sýnt að það er um 5% gerenda sem alls ekki er hægt að ná til en það er hægt að vinna með 95% gerenda. Skýringa á kynbundnu ofbeldi hefur lengi verið leitað. Sálfræðingar hallast að því að það sé vanmáttur/vanmetakennd karla sem veldur ofbeldinu fremur en að ofbeldið sé hluti af karlaveldi. Hann hefur haft nokkra einstaklinga til meðferðar en því miður hafa ekki reynst vera forsendur fyrir hópmeðferð enn sem komið er. Það er barnaverndin og fleiri sem hafa vísað einstaklingum til hans. Kristján lagði fram nokkrar tillögur um það sem betur mætti fara, t.d. að a) skerpa á vinnubrögðum þegar gripið er inn í heimilisofbeldi, b) fylgja formlegum verkferlum Ríkislögreglustjóra sem segja að alltaf eigi að kalla út starfsfólk félagsþjónustu og að þolandi eigi að fá viðtal innan þriggja daga, c) barnavernd hvetji / þrýsti á gerendur að fara í meðferð, d) námskeið fyrir fagfólk í uppeldisstörfum um að tala við foreldra þar sem grunur er um ofbeldi á heimili; e) meiri fræðsla – fyrirbyggjandi (ekki dæmandi), sem auðveldar pörum að leita aðstoðar, f) aðstandendur hvetji / þrýsti á gerendur að leita aðstoðar.

Næst á dagskrá var Lísbet Harðar-Ólafardóttir frá Sólstöfum á Ísafirði. Á því svæði sem Sólstafir sinna búa um 4000 manns. Samtökin hafa staðið vaktina á öllum útihátíðum og verið með fræðslu í öllum skólum á svæðinu. Haldin hafa verið námskeið, m.a. fyrir starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar. Þær hafa þó mætt töluverðri andstöðu í starfi sínu. Mörgum finnst ofbeldisumræðan slæm fyrir „ímynd“ samfélagsins og því er mikil krafa um þöggun. Konurnar sem vinna með Sólstöfum eru allar í öðrum störfum og því er um sjálfboðavinnu að ræða. Viðhorfin sem þær mæta endurspegla nálægðina í samfélaginu. 1. Ég get ekki tekið afstöðu, ég er of tengd... 2. Þetta hlýtur að vera misskilningur...Það mikilvægasta í vinnunni með brotaþolum er að hlusta og segja: ég er hér fyrir þig. Þetta er stöðug barátta um að fá fjármagn til starfsins því aðsóknin vex stöðust. Samt sem áður vefst fyrir Ísafjarðarbæ að veita styrk upp á 700.000 kr. Ríki og sveitarfélög verða að axla ábyrgð á ofbeldismálunum.  Sólstafir hafa gefið út leiðbeiningar á fjórum tungumálum um það hvert hægt er að leita eftir aðstoð. 

Ingibjörg Þórðardóttir félagsráðgjafi talaði fyrir hönd Aflsins á Akureyri. Hún byrjaði á því að segja að úrræðin sem væru til staðar væri að finna í 101 Reykjavík. Hún sagði að það væri vissulega hægt að veita þjónustu á netinu, hún hefði sjálf stundað hana. Aflið var stofnað 2002 en síðan hefur þjónustan margfaldast. Frá 2009 hefur hún fjórfaldast en fjármagn hefur aðeins aukist um 20%. Það sem af er 2015 hafa verið tekin 1270 viðtöl. Síminn er opinn allan sólarhringinn og Aflið hefur verið með fræðslu í öllum grunnskólum Akureyrar. Þær fara víðar ef beðið er um. Það er mikilvægt að undirstrika að þjónusta Aflsins er ekki sú sama og hjá opinberum aðilum og hún kemur ekki í staðinn fyrir sálfræðiþjónustu, hún er jafningjaþjónusta þar sem er hlustað og reynslu miðlað. Það þurfa að vera mismunandi úrræð í boði fyrir þolendur um land allt. 

Miklar umræður urðu á eftir erindunum. Þar kom m.a. fram að Neyðarmóttaka vegna nauðgana er ekki lengur til staðar á SAK. Þar er engin bakvakt en á þessu ári hafa komið upp 15 mál. Nú eru bara almennir hjúkrunarfræðingar á vakt. Óskað var eftir aðstoð fagaðila til að koma inn í skólana til að aðstoða kennara og skólastjórnendur við að greina þau börn sem hugsanlega búa við ofbeldi eða misnotkun. 

Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

1.Hvernig fáum við fólk á landsbyggðunum til að koma fram með sín mál og leita sér hjálpar. Það er ljóst að fámennið og nálægðin við gerendur og samfélagið er mikil hindrun. Málin eru allt of fá miðað við það sem við vitum.
2.Það þarf að bæta lög og reglur. Koma ákvæði um skyldur sveitarfélaga hvað varðar kynbundið ofbeldi inn í sveitastjórnarlög, bæta skilgreiningar o.fl. 
3.Það þarf aukið fjármagn til baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi. 
4.Það þarf að bæta upplýsingaflæði um þá þjónustu sem er fyrir hendi en það þarf líka að spyrja hversu langt þau duga og hvað á að taka við. 
5.Það vantar heildstæða stefnu hvað varðar baráttu gegn ofbeldi, aðstoða við brotaþola og úrræði til að stöðva gerendur. 
6.Brýnt er að sveitastjórnir vinni aðgerðaráætlanir gegn kynbundnu ofbeldi. 
7.Það þarf að stórbæta menntun fagstétta.
8.Bæta þarf skráningu hvað varðar ofbeldi í nánum samböndum, t.d. í heilbrigðiskerfinu.