Mat á áhrifum aðgengis barna og ungmenna að klámi

Þann 8. maí sl. kom út skýrsla um Mat á áhrifum af stafrænu aðgengi barna og ungmenna að klámi á heilsu þeirra og líðan. Skýrslan, sem er hluti af þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, var unnin af starfsfólki Embættis landlæknis með stuðningi frá Rannsóknum og greiningu sem lögðu til gögn til þess að vinna úr. Matið á í framhaldinu að nota til að móta tillögur að aðgerðum sem stuðla að kynheilbrigði ungs fólks.

Meðal helstu niðurstaðna matsins má nefna að tengsl eru milli mikils klámáhorfs og fjölmargra áhættuþátta, t.d. lítils svefns, tengsla við foreldra, að hafa orðið fyrir ofbeldi, mats á eigin andlegri og líkamlegri heilsu, kvíða og þunglyndiseinkenna. Eins kemur fram að drengir horfa frekar á klám en stúlkur þó að klámáhorf meðal stúlkna hafi aukist síðari ár. Hins vegar kemur einnig fram fækkun í þeim hópi stráka sem horfa á klám þrisvar í viku eða oftar, á meðan hópur stráka sem horfir aldrei á klám stækkar.

Frekari upplýsingar má finna á vef Embættis landlæknis.