Menntaskólinn í Kópavogi hlaut viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2007

Menntaskólinn í Kópavogi hlaut í gær árlega viðurkenningu Jafnréttisráðs. Meginástæða þeirrar ákvörðunar er að í menntaskólanum er skýr og virk jafnréttisstefna gagnvart bæði nemendum og starfsfólki. Skólinn hefur haft forystu um verkefni sem miða að því að jafna stöðu karla og kvenna.

Markmið jafnréttisáætlunar er að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla hjá Menntaskólanum í Kópavogi og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum, óháð kynferði. Þetta á m.a. við um rétt til starfa, aðstöðu, menntunar og launa fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Menntaskólinn í Kópavogi leggur áherslu á;

• Jafnrétti í skólanámskrá

• Launajafnrétti

• Jafnan hlut karla og kvenna við stjórnun skólans

• Jafnan hlut karla og kvenna í nefndum, ráðum og verkefnum á vegum skólans

• Að störf séu auglýst ókyngreind

• Jafnan rétt starfsfólks til endurmenntunar og starfsþróunar

• Gagnkvæma virðingu og góða líðan starfsfólks og nemenda

Hlutföll kynja

Skólameistari kona, aðstoðarskólameistari karl

2 áfangastjórar karl og kona

Fagstjórar 7 konur og 7 karlar

Aðrir stjórnendur: (Skrifstofustjóri, fjármálastjóri, innkaupastjóri) 1 kona 2 karlar

Kennarar: 55 konur 60%, 36 karlar 40%

Nemendur: 652 strákar (45%) 834 stelpur (55%).

Reglulega er farið yfir launagreiðslur í þeim tilgangi að skoða hvort kynjum sé mismunað. Að auki stóð skólinn fyrir sérstakri jafnréttisviku í mars þar sem öll kennsla hafði jafnrétti kynja að inntaki með einum eða öðrum hætti auk sameiginlegrar dagskrár þar sem fjallað var um ýmsa þætti málsins. Önnur jafnréttisvika er fyrirhuguð. Loks ber að nefna að MK er stýriskóli hins samevrópska Comeníusarverkefnis um jafnréttismál Equal2Equal.

Jafnréttisráð telur að Menntaskólinn í Kópavogi sýni gott starf á sviði jafnréttismála og vill með viðurkenningunni hvetja aðra skóla til líkrar starfsemi.