Morgunverðarfundur um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs

Fullt var út úr dyrum á morgunverðarfundi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem haldinn var á Grand hóteli í gær, þriðjudaginn 20. nóvember. Til fundarins var boðað af Velferðarráðuneytinu í samstarfi við Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð.
Í byrjun fundar flutti Þórður Kristinsson formaður starfshóps um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs kveðju frá Guðbjarti Hannessyni Velferðarráðherra. En eitt af markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Um þetta er fjallað í jafnréttisáætlun stjórnvalda fyrir árin 2011-2014 og til að vinna að þessu mikilvæga verkefni var vinnuhópur um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs settur á fót.

Á fundinum var meðal annars leitað svara við því hvernig fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög geta auðveldað starfsfólki og eða íbúum að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf?

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor í félagsfræði vitnaði í rannsóknir sem benda til þess að fólk brenni fyrr út í starfi vegna þess að það nái ekki að aðskilja fjölskyldu- og atvinnulíf. Tómas Bjarnason sviðstjóri hjá Capacent Gallup fjallaði um Hið gullna jafnvægi sem göfugt verkefni og taldi með vísan í kannanir að viðhorf yfirmanna skiptu sköpum þegar kæmi að samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og starfsánægju starfsfólks. Hanna Guðlaugsdóttir mannauðsstjóri hjá CCP og Magnús Guðmundsson forstöðumaður Landmælinga Íslands sögðu frá því hvernig komið er til móts við starfsfólk á þeirra vinnustöðum þegar kemur að fjölskyldulífi. Vilhjálmur Kári Haraldsson mannauðsstjóri í Garðabæ fór yfir það hvernig sveitarfélagið skipuleggur þjónustu sína út frá velferð og aðstæðum fjölskyldna. Markmiðið er að stofnanir bæjarins starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum.

Í lok fundarins voru fundargestir hvattir til að koma með hugmyndir og eða ábendingar um hvernig vinna má betur með samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Niðurstöðurnar verða teknar saman og birtar á heimasíðu verkefnisins www.hiðgullnajafnvægi.is sem opnuð verður í lok nóvember. Fundurinn var tekinn upp og mun upptakan verða sett á heimasíðuna.

Morgunverðarfundurinn var skipulagður af vinnuhópi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Auk þess að standa að fundinum er hlutverk vinnuhópsins meðal annars að afla upplýsinga um það hvernig þátttakendum á vinnumarkaði þykir þeim takast að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Einnig skal vinnuhópurinn annast fræðslu til atvinnurekenda og þátttakenda á vinnumarkaði, meðal annars með útgáfu bæklinga og upplýsinga á vefsíðu um leiðir til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
Í vinnuhópnum sitja fulltrúar atvinnulífsins og frjálsra félagasamtaka.