Ný evrópsk námskrá um jafnréttisfræðslu

Undanfarin tvö ár hefur Jafnréttisstofa tekið þátt í verkefni um samræmda jafnréttisfræðslu í Evrópu. Frumkvöðull þessa verkefnis var jafnréttisskrifstofa fylkisins Niederösterreich sem staðsett er í borginni St. Pölten norður af Vínarborg. Aðrir þátttakendur voru fulltrúr félagasamtaka í Króatíu og Litháen. Verkefninu er nú lokið með útgáfu „námskrár“  (e. curriculum) sem ætlað er að gagnast öllum þeim sem þjálfa fólk til jafnréttisfræðslu (e. train the trainers).
Upphaf verkefnisins var það að stjórnendum jafnréttisskrifstofunnar í St. Pölten fannst sú jafnréttisfræðsla sem var í boði vera ansi sundurleit. Áherslur voru mismunandi, sem og notkun hugtaka og aðferðafræðin við fræðsluna. Sú hugmynd kom upp að sækja um styrk í Erasmus prógramm Evrópusambandsins  til að ná saman fulltrúum frá ólíkum þjóðum og á mismunandi stigum jafnréttisbaráttunnar, ýmist stjórnsýslustofnunum eða frjálsum félagasamtökum og búa til samræmda námskrá. Niðurstaðan varð sú að Jafnréttisstofa á  Íslandi, félagasamtökin Cesi og Center for Womens‘ Studies í Króatíu, Center for Equality Advancement í Litháen og svo jafnréttisskrifstofa Niederösterreich tóku þátt í verkefninu.  

Um tveggja ára skeið hefur verið unnið að námskránni, leitað til sérfræðinga í hverju landi fyrir sig, fundir haldnir, dæmum um góða jafnréttisfræðslu safnað og loks haldin lokaráðstefna í St. Pölten 27.-28. júní síðast liðinn. Á ráðstefnunni var rætt um áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir, allt frá niðurskurði á fjármagni til jafnréttismála til flóttamannavandans sem krefst sérstakra aðgerða. Konum og stúlkubörnum er að fjölga hratt meðal flóttamanna í Evrópu og þær eru í margvíslegri hættu (t.d. að lenda í kynlífsþrælkun) sem ekki herjar á karlana í jafn ríkum mæli. Bæði karlar og konur reka sig á ólíkan menningarheim Evrópu og það þarf að fræða allt þetta fólk um réttindi og skyldur, ekki síst um jafnrétti kynjanna. Starfsfólk á öllum stjórnsýslustigum sem og félagasamtök þurfa að vera viðbúin og kunna að beita kynjagleraugunum á aðsteðjandi vanda eða viðfangsefni en einnig að standa sig í að bæta samfélagið og tryggja kynjajafnréttið heima fyrir. Jafnframt þeim vandamálum sem blasa við hefur efnahagssamdráttur komið niður á jafnréttismálum. Bæði Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðanna hvetja ríki innan sinna vébanda til að efla jafnréttisstarfið því vitað er að það leiðir til betra og réttlátara samfélags og bættrar nýtingar mannauðsins. 

Námskráin sem ber enska heitið „Train the Trainer in Gender Equality – Curriculum“ skiptist í eftirfarandi kafla ásamt fjölda undirkafla:  Inngangur,1. Hvað þarf jafnréttisþjálfarinn að vita/kunna varðandi kynjajafnrétti?, 2. Jafnrétti í raun og 3. Aðferðafræði í jafnréttisfræðslu.  

Fyrst um sinn verður námskráin aðeins til á ensku en til stendur að þýða hana á íslensku. 

Hér má sjá námskrána: