Ný rannsókn á viðhorfum stjórnenda til jafnréttismála

„Jafnrétti á vinnustöðum á Íslandi“ er heiti skýrslu sem Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur unnið fyrir Jafnréttisstofu. Skýrslan fjallar um niðurstöður spurningakönnunar sem Jafnréttisstofa hefur haft veg og vanda af. Í könnuninni er leitast við að kanna viðhorf stjórnenda fyrirtækja til jafnréttis og mismununar. Verkefnið var unnið í tengslum við samstarf Jafnréttisstofu við Mannréttindaskrifstofu Íslands og Fjölmenningarsetur og styrkt af Progress áætlun Evrópusambandsins.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hug stjórnenda til þess hvernig staðið er að því að tryggja starfsfólki réttindi sem kveðið er á um í íslenskri jafnréttislöggjöf ásamt því að kanna viðhorf til álitamála varðandi áhrif innleiðingar tveggja tilskipana Evrópusambandsins. Annarsvegar tilskipunar sem tryggja mun jafnan rétt fólks án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna og ennfremur tilskipunar sem bannar hverskonar mismunun á vinnumarkaði, t.d. vegna aldurs, kynhneigðar, trúar/lífsskoðunar eða fötlunar.

Í ljós kom að fræðsla um jafnrétti var ekki næg á vinnustöðum og að meirihluti fyrirtækja vann ekki eftir jafnréttisáætlun né hafði áætlun um hvernig bregðast ætti við kynferðislegri áreitni. Hins vegar taldi meirihluti yfirmanna að mikið jafnrétti væri á þeirra vinnustað og að leitast væri við að mismuna ekki fólki.

Mikill meirihluti svarenda taldi að mismunun ætti sér stað á íslenskum vinnumarkaði. Flestir töldu að mismunað sé vegna kynferðis (63,8%) en fæstir vegna trúar/lífsskoðunar (20,5%). Yfir 80% svarenda þekktu ekki til áðurnefndra tilskipana ESB um jafnrétti og bann við mismunun á vinnumarkaði. Meirihluti (62,7%) taldi fræðslu vanta um þessar tilskipanir en þó hafði meirihluti (59,6%) lítinn eða engan áhuga á að þekkja betur til þeirra. Meirihluti (62,4%) taldi ekki þörf á nýrri jafnréttislöggjöf sem tæki til fleiri þátta en kynferðis.