- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Komin er út skýrsla um hæfnisramma fyrir fræðslu í tengslum við verkefnið „Konur gára vatnið - Eflum leiðtogahæfni kvenna“. Verkefnið hófst í október 2019. Þrátt fyrir ýmis jákvæð skref í jafnréttisátt er enn töluvert í land þegar kemur að launajafnrétti kynjanna í Evrópu. Markmið þessa verkefnis er að vinna að auknum áhrifum kvenna í gegnum valdeflandi námskeið þar sem megin áhersla er lögð á leiðtogahæfni, sjálfsþekkingu og sjálfstraust. Verkefnið miðar að aukinni þátttöku kvenna í forystuhlutverkum á vinnumarkaði og auknum sýnileika kvenna í fjölbreyttum leiðtogahlutverkum sem styður við afnám kynjabils í launum og áhrifum.
Með stuðningskerfi yfir landamæri og félagslegri aðlögun miðar verkefnið ennfremur að því að byggja upp tengsl milli ólíkra kvenna sem allar leitast við að þróa færni sína og stuðla þannig að því að allar konur geti náð faglegum markmiðum sínum.
Verkefnið mun leggja áherslu á að greina þarfir ólíkra kvenna í tengslum við leiðtogaþjálfun en einnig í takt við kröfur fyrirtækja í því skyni að hámarka atvinnutækifæri og styðja við framgang þeirra.
Fyrsta hluta verkefnisins er nú lokið en hann snerist um að kanna þarfir og þróa hæfniramma. Markmiðið með hæfnirammanum var að þróa hæfniviðmið og skilgreina þá hæfileika sem konur sem búa við tvíþætta mismunun þurfa að öðlast til að auka leiðtogahæfni þeirra. Upplýsingum var safnað í hverju þátttökulandi um menntun, atvinnuþátttöku og tækifæri kvenna og karla. Auk þess voru tekin viðtöl við konur sem hafa mætt hindrunum á vinnumarkaði og unnið í rýnihópum. Samtals tóku 17 konur þátt í viðtölum og 39 í rýnihópum. Einnig voru tekin viðtöl við 11 hagsmunaaðila í þeim tilgangi að vita hvers konar hæfileikum og getu þeir telji að góður leiðtogi eða stjórnandi þurfi að búa yfir.
Í þessari fyrstu rannsókn kemur í ljós að löndin eiga margt sameiginlegt þegar kemur að atvinnulífinu og faglegum metnaði kvenna. Tölfræðilegu gögnin sýna að konur hafa almennt lokið námi á hærra menntunarstigi en karlar og fjölgun kvenna í háskólanámi er hraðari hjá konum en körlum. Atvinnuþátttaka innan Evrópusambandsins er 67% hjá konum (á aldrinum 20-64 ára) en 79% hjá körlum. Heildar atvinnuþátttaka er 73% en markmið Evrópusambandsins fyrir árið 2020 er 75% þátttaka á vinnumarkaði.
Gögnin í heild sýna að það er ekki hægt að vísa til þess að konur mæti hindrunum vegna þess að þær vanti þekkingu eða menntun þar sem tölfræðin og rannsóknir sýna að konur eru í raun með meiri menntun og hæfni en karlar í sumum atvinnugreinum. Þannig má rökstyðja að aðrir þættir séu þar að verki og hafi bein áhrif á tækifæri kvenna.
Svör kvennanna í viðtölum og rýnihópum sýna að konurnar telja þjálfun sem beinist að einstaklingsgetu, styrk og sjálfsöryggi nauðsynlega en einnig þjálfun sem hefur það að markmiði að auka frumkvæði þeirra. Á meðal þeirra tækifæra sem þær óska eftir í sínu einka- og opinbera lífi (fyrir utan stuðning, tíma og peninga) er símenntun og geta til að þróa sinn starfsferil. Þær bentu sérstaklega á mikilvægi tengslamyndunar, að læra að sýna meira frumkvæði, hafa gott sjálfstraust og finna leiðbeinanda (mentor) til að líta til og læra af.
Konurnar sýndu allar mikinn áhuga á að efla sjálfar sig og virðist sú sjálfsefling vera þeirra lokamarkmið áður en þær sækjast eftir stjórnunarstörfum í atvinnulífinu. Það er einnig ljóst að konur mæta ýmsum hindrunum, bæði í einka- og opinbera lífinu. Auk þess að mæta svipuðum hindrunum og karlmenn þurfa konurnar að sanna sig á áberandi hátt, berjast gegn staðalmyndum kynjanna og taka á sig meiri ábyrgð á heimili og uppeldi barna.
Niðurstöður úr rannsókninni og viðtölunum veita mikilvægar upplýsingar um hvernig á að hanna og undirbúa námskeið sem hafa það að markmiði að valdefla konur sem verða fyrir fjölþættri mismunun á vinnumarkaði. Næsta skref verkefnisins er að þróa námskeiðin.
Skýrslan Konur gára vatnið - Hæfnisrammi fyrir námskeið (pdf).
Bæklingur um verkefnið (pdf).