Reynsla feðra af fæðingarorlofi og launamunur kynjanna

Auður Arna Arnardóttir, lektor í viðskiptadeild HR og Margrét Jónsdóttir, forstöðumaður á Alþjóðasviði við HR halda í dag erindi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, kl. 12:00 í Odda, stofu 101. Í erindinu greina þær frá niðurstöðum tveggja rannsókna sem styrktar voru úr Jafnréttissjóði.Annars vegar er um að ræða rannsóknina Reynsla feðra og maka þeirra af fæðingarorlofi.  Megintilgangur þessarar rannsóknar var að auka við þekkingu á þeim áhrifum sem löggjöf 95/2000 um aukinn fæðingarorlofsrétt  hefur haft á atvinnu-, fjölskyldu-, og heimilislíf.  Sérstaklega hvort lögin séu að stuðla að því markmiði “...að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf“. Gerð var greining á svörum tæplega 600 feðra annars vegar og mökum þeirra hins vegar. Spurningar snéru að þátttöku einstaklinga í heimilisstörfum og umönnun barna að orlofi loknu, tengslum við barn og maka, og stöðu á vinnumarkaði. Fyrstu niðurstöður benda til þess að ný lög um fæðingarorlof hafa að mati feðra stuðlað að auknum tilfinningalegum tengslum þeirra við börn sín, en umönnun barna og heimilisstörf eru enn að stórum hluta í verkahring móður. Jafnframt voru innan við 30% svarenda sammála þeirri staðhæfingu að eftir töku fæðingarorlofs ríki meira jafnræði milli para en áður. 

Hins vegar verða kynntar niðurstöður úr rannsókninni Kvennafn lækkar launin. Sýnt verður hvernig þátttakendur töldu ávallt að kvenkyns umsækjanda bæri að fá lægri laun en karlkyns umsækjanda, hvort heldur sem verið var að ráðleggja í launaviðræðum, biðja um laun, bjóða laun eða leggja mat á hvað teldust sanngjörn laun.

Verið velkomin.