Reynsla foreldra í fæðingaorlofi

Í nýlegri rannsókn sem Bryndís Jónsdóttir vann í tengslum við mastersritgerð sína í mannauðstjórnun er reynsla fólks í fæðingaorlofum könnuð. Þar kemur meðal annars fram að þriðjungur kvenna og tíundi hver karlmaður hættir störfum að loknu fæðingarorlofi.


Ýmsar skýringar eru á því að fólk komi ekki aftur til starfa hjá sama atvinnurekanda eftir fæðingarorlof. Bryndís segir að tíu prósentum sé sagt upp, þrátt fyrir það að það sé bannað með lögum. Mjög margir segja hins vegar starfi sínu upp að loknu fæðingaorlofi.

Það kemur fram í þessari rannsókn að mikill munur er á viðhorfum á vinnustöðum eftir hvort að yfirmaður er karl eða kona. Á vinnustöðum þar sem konur stýra er almennt jákvæðara viðhorf til fæðingarorlofs en þar sem karlar stjórna. Viðhorfið á vinnustaðnum hefur áhrif á hvernig foreldrar skipuleggja orlof sitt. Algengara er að feður taki orlof í fleiri bútum á meðan að konur taka það oftar í heilu lagi.

Bryndís segir að nauðsynlegt sé að jafna stöðu kynjanna gagnvart fæðingarorlofinu, og tryggja að taka fæðingarorlofs verði sjálfsagður hlutur á vinnumarkaði. Til þess að ná því markmiði þarf að lengja fæðingarorlofið og lengja þann lágmarkstíma sem foreldrar geta verið í orlofi.

Hægt er að sjá nánari umfjöllun um þessa rannsókn í Kastljósi sl. miðvikudag. Einnig var fjallað um þessa rannsókn og annað tengt fæðingaorlofi í Fréttablaðinu dagana 11. og 12. júlí.