„Sænska leiðin“ gefur góða raun í Noregi – rannsóknir skortir enn á Íslandi

Árið 2009 gengu í gildi lög í Noregi sem mæla fyrir um að vændiskaup séu gerð refsiverð en vændissala refsilaus.  Í vikunni kynnti norska ríkisstjórnin úttekt sem gerð hefur verið á framkvæmd og innleiðingu löggjafarinnar fyrstu fjögur árin. Niðurstöður sýna að vændi hefur minnkað um allt að 25% í landinu. Lögin hafa sérstaklega haft áhrif á umfang svokallaðs götuvænds í Ósló, sem hefur minnkað um allt að 60%. 

Þeir sem gagnrýndu lögin hvað harðast í undanfara lagasetningarinnar bentu á að bann við vændiskaupum gæti leitt til aukins ofbeldis gagnvart fólki í vændi. Rannsóknin sýnir að þær áhyggjur áttu ekki við rök að styðjast. Þá segja skýrsluhöfundar að löggjöfin hafi haft áhrif á viðhorf ungra karla til vændiskaupa og orðið til þess að minnka eftirspurn hjá þeim.
Árið 2009 gengu einnig í gildi ákvæði í íslenskum hegningarlögum um bann við vændiskaupum. Lögin fólu í sér þá breytingu að hver sá sem greiðir eða heitir greiðslu fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þessi leið við lagasetningu var fyrst farin í Svíþjóð árið 1999 með lögum nr. 408/1998, (sæ. om förbud mot köp af sexuella tjänster).  Almennt er því talað um „sænsku leiðina“ þegar rætt er um lög um sölu og kaup á vændi á Íslandi og á Norðurlöndunum. 

Í skýrslu starfshóps um karla og jafnrétti, sem afhent var velferðarráðherra árið 2013, er lagt til að rannsóknir á vændi verði stórefldar og að í rannsóknum þurfi sérstaklega að varpa ljósi á vændiskaupendur – þ.e. karla sem kaupa vændi.