Samantekt NIKK á áhrifum COVID-19 á kynjajafnrétti á Norðurlöndum

Covid-19 hefur nú herjað í rúmt ár á heimsbyggðina og afleiðingar faraldursins eru fjarri því að vera kynhlutlausar. Sem dæmi má nefna að Covid leggst að jafnaði verr á karlmenn og þeir eru líklegri til að deyja af völdum vírussins. Eins má nefna aukið heimilisofbeldi, mismunandi áhrif á kvenna- og karlastéttir á vinnumarkaði og aukið álag á heimilin þar sem konur taka að jafnaði meiri ábyrgð á námi og umönnun barna og annarra fjölskyldumeðlima.

Nýleg samantekt NIKK (Norrænar upplýsingar um kyn), Áhrif COVID-19 á kynjajafnrétti – þekking og viðbrögð á Norðurlöndum, tekur saman hvernig Norðurlöndin hafa brugðist við þeim kynjuðu áskorunum sem í faraldrinum felast. Í samantektinni, sem byggir á upplýsingum og tölfræði frá Norðurlöndunum ásamt viðtölum við rannsakendur og sérfræðinga, kemur fram að þó að Norðurlöndin séu um margt lík, þá hafa þau gripið til mjög ólíkra aðgerða til að bregðast við Covid-19. Markmiðið með samantektinni er að Norðurlöndin geti lært af reynslu hvers annars og þannig verið betur undirbúin til framtíðar. Samantektin kallar eftir því að kynjasjónarmið séu ávallt höfð í huga í viðbrögðum við faraldrinum. Ekki séu allar afleiðingar faraldursins komnar í ljós og afla verði meiri þekkingar á kynjuðum áhrifum hans og viðbrögð þurfi að taka mið af bestu mögulegri þekkingu á hverjum tíma.

Samantektina, sem fjármögnuð er af Norrænu ráðherranefndinni, og nánari upplýsingar um hana má finna hér.